Vaxtamunurinn eðlilegur

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, sagði í Kastljósi í kvöld að vaxtamunur sá sem væri á milli samningsins við Hafnarfjörð annars vegar og Magma Energy hins vegar ætti sér eðlilegar skýringar.

Guðlaugur sagði að munurinn væri sá að Hafnarfjarðarbær væri innlendur aðili og því væru vextir á kaupsamningi OR á hlut Hafnarfjarðr í HS Orku, 4,5%, eðlilegir. Um væri að ræða auðseljanlegt bréf.

Hinn aðilinn, Magma Energy, væri hins vegar erlendur aðili og þar væri farið eftir bandarískum stýrivöxtum. Hann benti á að greiðsla Magma væri líka tengd álverði svo lánið væri verðtryggt að hluta.

OR staðgreiðir Hafnarfjarðarbæ helming af kaupverði 15% hlutar í HS Orku. Afganginn greiðir Orkuveitan svo eftir sjö ár. Orkuveitan greiðir Hafnarfjarðarbæ 4,5% vexti af láninu.

Orkuveitan fær hins vegar 1,5% í vexti af skuldabréfi Magma Energy vegna sölunnar á 16,58% hlut OR og tæplega 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS Orku til Magma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert