Starfsmenn Sementsverksmiðjunnar á Akranesi samþykktu einróma í gær að fallast á tilboð fyrirtækisins um að fara í hálft starf frá 1. nóvember næstkomandi. Starfsmennirnir eru 45 talsins. Þeir munu verða í 50% starfi til 1. febrúar 2010.
Sementsverksmiðjan á Akranesi berst nú fyrir lífi sínu en sá mikli samdráttur sem orðið hefur á byggingamarkaði í kjölfar bankahrunsins hefur gert starfsemi Sementsverksmiðjunnar erfitt fyrir. Stjórnendur og starfsmenn verksmiðjunnar þinguðu á föstudag, ásamt formanni Verkalýðsfélags Akraness og forstöðumanni Vinnumiðlunarinnar á Vesturlandi.
„Það er ríkir mikill einhugur í röðum starfsmanna Sementsverksmiðjunnar að standa vörð um fyrirtækið í þeim þrengingum sem nú ríkja á byggingamarkaði og við atkvæðagreiðsluna kom það berlega í ljós. Fjölmargir starfsmenn verksmiðjunnar hafa áratuga langan starfsaldur að baki og vilja þeir með þessu leggja sitt af mörkum til þess að fyrirtækið lifi af þær hremmingar sem nú ríða yfir byggingarmarkaðinn“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Í byrjun febrúar verður farið í ofnstoppsvinnu en reiknað er með að hún taki um einn mánuð. Því má gera ráð fyrir að kveikt verði upp í ofni verksmiðjunnar í byrjun mars en sem fyrr, munu ástandið á byggingamarkaðinum og eftirspurn eftir innlendu sementi ráða því.