Vilja hlut Geysis Green í HS Orku til hins opinbera

Frá stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur í gær.
Frá stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur í gær. mbl.is/Heiðar

Stjórnvöld, með fjármála- og iðnaðarráðuneyti í fararbroddi, vilja reyna með öllum ráðum að tryggja að meirihluti í HS Orku verði í eigu hins opinbera og lífeyrissjóðanna. Sérstaklega er mikill þrýstingur úr grasrót Vinstri grænna á forystu flokksins, einkum Steingrím J. Sigfússon, um að beita sér fyrir því að hið opinbera haldi ráðandi hlut í HS orku. Einkum er horft til þess, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að opinberir aðilar eignist hlut sem nú er í eigu Geysis Green Energy (GGE). Hann er um 55 prósent af heildarhlutafé í fyrirtækinu.

Fjármála- og iðnaðarráðuneyti sendu frá sér í tilkynningu í gær þar sem tilkynnt var að komið yrði á fót viðræðuhópi fulltrúa ríkisins, sveitarfélaga, lífeyrissjóða og fleiri aðila, um mögulegar aðgerðir vegna málsins. Meðal þess sem er í undirbúningi, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, er stofnsetning Fjárfestingasjóðs Íslands sem verður í eigu lífeyrissjóðanna. Hann myndi mögulega hafa aðkomu að HS orku og fleiri verkefnum í orkugeiranum. Fleiri kynningarfundir vegna sjóðsins eiga þó eftir að fara fram, meðal annars með fjármálafyrirtækjum og forsvarsmönnum allra lífeyrissjóða.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í gær að selja hlut sinn í HS orku til kanadíska fyrirtækisins Magma Energy, með fyrirvara um samþykki borgarráðs og borgarstjórnar. Það fyrirtæki eignaðist sömuleiðis hlut Hafnarfjarðarbæjar. Samanlagt eru hlutirnir um 32 prósent af hlutafé í fyrirtækinu. Ef kaupin verða samþykkt mun Magma ráða yfir um 45 prósentum af heildarhlutafé í félaginu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert