Óhætt er að segja að bloggheimar logi vegna þeirrar ákvörðunar forseta íslands að staðfesta lög um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninga við Hollendinga og Breta.
Tugir hafa sagt álit sitt á frétt um staðfestinguna og lýsa margir yfir mikilli óánægju með ákvörðun forsetans.
Gera athugasemdir við yfirlýsingu
Forsvarsmenn vefsíðunnar kjosa.is segja í yfirlýsingu að fullyrðing í fréttatilkynningu forseta Íslands um staðfestingu Icesave-laganna sé röng.
Í yfirlýsingu forseta Íslands segir: „Eðlilega er þó enn andstaða við málið meðal almennings eins og undirskriftir um 10.000 Íslendinga, sem forseta hafa borist, eru meðal annars til vitnis um.“
Forsvarsmenn kjosa.is segja fullyrðinguna ranga. Í áskorun sem rúmlega 10 þúsund Íslendingar skrifuðu undir og afhent hafi verið forseta Íslands, hafi engin afstaða verið tekin með eða á móti Icesave-frumvarpinu.
„Þess var aðeins krafist að þjóðin fengi sjálf að gera út um málið, eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar fyrr og síðar, svo vitnað sé til orða forsætisráðherra. Til marks um andstöðu í samfélaginu við frumvarpið og fyrirliggjandi samninga hefði forseti getað vitnað beint til nýlegrar könnunar Gallup eða þeirra tugþúsunda sem hafa tjáð sig á facebook-síðum,“ segir í yfirlýsingu forsvarsmanna kjosa.is.
Frétt mbl.is um staðfestingu Icesave-laga