Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir mikilvægt að það skýrist sem fyrst hvernig bankarnir hyggist fara í almenna skuldaúrvinnslu sinna viðskiptavina. „Það er alltaf verið að meta þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til og hvernig þær virka og skila sér. Auðvitað voru menn að vonast til þess, og gera enn, að gengi krónunnar styrktist og þá dregur úr misvæginu í gjaldeyrislánunum,“ segir hann.
„Ég hef alltaf hvatt til raunsæis í því að allar tillögur verða að vera markvissar og hnitmiðaðar og viðráðanlegar við okkar aðstæður því þetta eru ríkissjóður, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir okkar sem í hlut eiga fyrir utan fjármálastofnanirnar og bankana og það skilja það allir og sjá að því eru takmörk sett sem menn geta gert við þessar erfiðu aðstæður. Það þýðir ekki að viljann skorti og það þýðir ekki að neitt hafi verið útilokað.“