Óttasleginn flóttamaður enn í felum

Ali Nayef.
Ali Nayef. mbl.is/Sigurður Ólafsson

„Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég er mjög hræddur,“ segir Írakinn Ali Nayef í samtali við mbl.is, en hann er flóttamaður í felum í Danmörku. Tuttugu og tveir samlandar hans, sem neitað hafði verið um hæli í landinu, voru sóttir í Sandholmlejren flóttamannabúðirnar í nótt og sendir úr landi snemma í morgun.

Farið var með fólkið á flugvöllinn í Hróarskeldu þaðan var flogið með það til Íraks. Um er að ræða 21 karlmann og eina konu. „Þetta eru allt vinir mínir,“ segir hann.

„Ég óttast mjög að missa soninn minn og allt saman,“ segir Ali, en hann á fjögurra ára gamlan son sem býr á Íslandi með móður sinni sem er íslensk.

Aðspurður segist hann vilja koma til Íslands, en hann segir að staðan sé erfið og óvissan algjör. Hann hafi ekki sótt um hæli hér á landi.

Það vakti mikla athygli í síðasta mánuði þegar danska lögreglan gerði áhlaup á Brorsonskirkjunni í Kaupmannahöfn aðfararnótt 13. ágúst og handtók flóttamenn sem höfðust þar við. Ali Nayef var á meðal þeirra sem dvöldu í kirkjunni, en honum tókst að flýja og hefur verið í felum í Kaupmannahöfn síðan. Hann kom til Danmerkur árið 2003.

Ali segir að lögreglan leiti nú að sér því hann eigi yfir höfði sér að verða sendur aftur til Íraks, sem hann hræðist mjög. En hann missti bæði föður sinn og bróður í kjölfar innrásarinnar Bandaríkjahers í Írak árið 2003.

Hann þorir því ekki að láta sjá sig úti á götu. Hann segist njóta aðstoðar velviljaðra einstaklinga sem útvegi sér mat og sígarettur. Nú haldi hann sig innandyra og fylgist með fréttum. Líf hans er í biðstöðu um þessar mundir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert