Forsetinn staðfestir Icesave-lög

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur staðfest lög um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninga við Hollendinga og Breta.

Forsetinn segist í yfirlýsingu staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis. Um leið lætur hann í ljósi þá ósk, að kraftar þings og þjóðar verði sameinaðir í því brýna verkefni að endurreisa íslenskt efnahagslíf, styrkja fjárhag heimilanna og stoðir atvinnuveganna.

í yfirlýsingu forsetans segir að lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna þann 28. ágúst 2009, séu margvíslegir fyrirvarar sem settir voru í hið upphaflega frumvarp.

Fyrirvararnir séu niðurstaða samvinnu fulltrúa fjögurra þingflokka í fjárlaganefnd Alþingis og byggðir á tillögum og hugmyndum fjölda sérfræðinga og áhugafólks á almennum vettvangi.

Þá segir að samstaða hafi náðst á Alþingi og utan þess um að afgreiða lögin í krafti þessara fyrirvara og Alþingi hafi samþykkt þá með afgerandi hætti.

„Eðlilega er þó enn andstaða við málið meðal almennings eins og undirskriftir um 10.000 Íslendinga, sem forseta hafa borist, eru meðal annars til vitnis um. Fyrirvararnir sem Alþingi smíðaði og samþykkti taka mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð. Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis. Um leið lætur forseti í ljósi þá ósk, að kraftar þings og þjóðar verði sameinaðir í því brýna verkefni að endurreisa íslenskt efnahagslíf, styrkja fjárhag heimilanna og stoðir atvinnuveganna. Að undanförnu hefur okkur birst á margvíslegan hátt að Íslendingar eiga fjölþætt sóknarfæri, að auðlindir landsins, hæfni og þekking þjóðarinnar geta orðið grundvöllur að traustu og réttlátu hagkerfi. Þau sóknarfæri þarf nú að nýta,“ segir í yfirlýsingu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert