Íslendingar fá ekki flýtimeðferð í ESB

Olli Rehn.
Olli Rehn. Reuters

Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ítrekaði í dag þegar hann ávarpaði utanríkismálanefnd Evrópuþingsins, að aðildarumsókn Íslands fengi enga flýtimeðferð og Íslendingar geti ekki stytt sér leið inn í sambandið. 

Rehn tók fram, að Ísland væri Evrópuríki með sterka lýðræðishefð og tengdist Evrópusambandinu þegar sterkum böndum með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen. 

„Þetta svarar til um að bil 2/3 af regluverki Evrópusambandsins. Hins vegar fær Ísland enga flýtimeðferð og getur ekki stytt sér leið til ESB-aðildar. Landið þarf að uppfylla sömu skilyrði og önnur umsóknarríki byggð á meginreglunni um „eigin verðleika." Framkvæmdastjórnin mun mynda sér ýtarlega og hlutlausa skoðun byggða á sömu aðferðafræði og beitt verður gagnvart öðrum ríkjum," sagði Rehn.

Í ræðunni fór hann yfir stöðu mála hjá öðrum ríkjum, sem hafa sótt um aðild að ESB. Hann sagði, að ef Króatar uppfylla sett skilyrði í tíma og landamæradeila þeirra og Slóvena leysist innan skamms kynni að vera hægt að ljúka aðildarviðræðum við þá á fyrri hluta næsta árs.  

Rehn sagðist einnig vonast til að viðræður hefjist við Tyrki að nýju en það sé háð umbótum á löggjöf Tyrkja.  

Þá geti framkvæmdastjórn ESB hugsanlega lagt til síðar á þessu ári, að aðildarviðræður hefjist við Makedóníu ef landið uppfyllir sett skilyrði.  Góðar fréttir berist frá Svartfjallalandi og hugsanlega geti framkvæmdastjórnin myndað sér skoðun um umsókn Svartfellinga á næstu mánuðum. Einnig hefðu nýlegar kosningar í Albaníu tekist betur en fyrri kosningar þótt þær hefðu ekki verið gallalausar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka