Brátt kemur á markað íslenskur hundamatur, Urr smáhundamatur, framleiddur af fyrirtækinu Murr ehf í Súðavík. Nú þegar er hægt að fá kattamat frá fyrirtækinu. Fyrirtækið er staðsett í Súðavík og starfa þar fjórir starfsmenn.
„Hundar eru til af öllum stærðum og gerðum. Þeir smæstu vega ekki mikið meira en kíló en þeir stærstu vega tugi kílóa. Það er því ákaflega mikilvægt að fóður miðist við stærð og hreyfiþörf hundsins“, segir í kynningarbæklingi sem Murr hefur gefið út.
Murr ehf. hefur undanfarin tvö ár unnið að undirbúningi framleiðslu á íslenskum kattamat. Hefur vöruþróun og uppsetning verksmiðju á Súðavík gengið vel.
Murr ehf. hefur átt gott samstarf við Norðlenska sláturhúsið á Akureyri og SAH afurðir á Blönduósi í þessu nýsköpunarverkefni sem felst í framleiðslu á verðmætum afurðum úr áður vannýttu hráefni.
Fjórir
starfsmenn starfa hjá Murr ehf. og vonast er til að þeim fjölgi þegar
framleiðslan verður komin á fullan skrið. Fyrstu vörurnar sem Murr
setur á markað eru heilfóður fyrir fullorðna ketti og hundasælgæti.
Mjög mikil áhersla hefur verið lögð á að nota einungis hreinar
náttúrulegar afurðir og engin uppfyllingar- eða aukaefni.
Bragi
Líndal Ólafsson fóðurfræðingur og Þorleifur Ágústsson
dýralífeðlisfræðingur hafa stýrt þróunarvinnu fyrirtækisins. Unnið er
að þróun fjölbreyttrar vörulínu og er meðal annars stefnt að því að
þróa fóður sem sérstaklega verður ætlað fyrir unga ketti annarsvegar og
eldri ketti hinsvegar. Mikill áhugi er á því hjá sláturleyfishöfum að
Murr taki við áður vannýttu hráefni. Með því er meðal annars mögulegt
að lækka förgunarkostnað til muna og auka verðmæti sláturafurða, sem
ætti að skila sér í fjárhagslegum ávinningi fyrir bændur.