Verið er að kanna hvort einhverjar hindranir sé að finna í löggjöf annarra Evrópuríkja við starfsemi Hell´s Angels. Á Norðurlöndum líta stjórnvöld á skipulögð glæpasamtök vélhjólamanna á borð við Hell´s Angels sem vaxandi samfélagsógn og í Danmörku hefur verið vakið máls á að banna slíka starfsemi. Hér á landi hyggst Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra leggja fram á haustþingi frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum sem bannar skipulagða glæpastarfsemi.
Að mati Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra er mikilvægt að dómsmálaráðherra láti kanna lagaumhverfið. „Það þarf að skoða lagaumhverfið og finna leiðir til að stemma stigu við og koma í veg fyrir að skipulegir glæpahópar geti myndast og starfað í landinu,“ segir Haraldur. Hann segir embætti ríkislögreglustjóra eiga í góðu samstarfi við dómsmálaráðuneytið við að kanna lagaleg úrræði. „Lögregla lítur á þessa þróun [stofnun Vítisengla á Íslandi] alvarlegum augum og við erum öll sammála um að hana beri að hindra.“
„Mér er ekki kunnugt um slík tengsl,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson, yfirmaður efnahagsbrotadeildarinnar. „Við höfum engar upplýsingar um það, hvorki af né á.“ Hann segir hins vegar mega telja nokkuð víst að fjórmenningarnir sem fyrst voru handteknir tilheyri hópi sem leiti inngöngu í Fáfni. Tengsl fimmta mannsins við vélhjólasamtökin séu síðan öllu fjarlægari.