Metuppskera í Hornafirði

Kartöflubændur í Hornafirði brosa breitt því uppskeran er með eindæmum góð að því segir á frétta- og upplýsingavef Hornafjarðar. „Ég hef aldrei fengið svona mikla og góða uppskeru,“ sagði Hjalti Egilsson kartöflubóndi á Seljavöllum þegar þar sem hann og fólk hans voru við kartöfluupptöku í dag. 

Hjalti treysti sér ekki til að áætla hversu margföld uppskeran væri, bara að þetta væri miklu meira en hann hefði nokkurn tíma fengið en magn útsæðis var sama og í fyrra í 22 hektara.

Hjalti byrjaði að taka upp kartöflur (premier) og koma í sölu síðast í júní sem var nokkru fyrr en áður hefur tíðkast og það sem meira var – hann setti niður útsæði (gullauga) í garðinn þar sem búið var að taka upp. „Þetta er nú bara tilraun til að vita hvort tekst að fá tvisvar uppskeru  í sumar,“ sagði Hjalti. „Það eru allavega komin ,smá ber það er að segja þar sem gæsirnar réðust ekki í garðinn, það hefði þurft að setja yfirbreiðslu strax þá hefði þetta allt bjargast. Nú er bara að bíða og sjá hvernig þessi seinni uppskera verður,“ segir Hjalti í samtali við fréttamann vefjarins.

Birna Jensdóttir húsfreyja á Seljavöllum segir að kartöflugeymslurnar séu að verða fullar og enn mikið ókomið í hús, annars fari kartöflurnar mikið á markaðinn jafnóðum. „Við sendum allt nema það sem fer hér á heimamarkað til eins dreifingaraðila í Reykjavík sem síðan sér um að koma vörunni til verslana og stórmarkaða,“ segir Birna.

Hér má sjá fréttina á Frétta- og upplýsingavef Hornarfjarðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert