Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups eru 41% landsmanna ánægðir með störf embættis sérstaks saksóknara, en 24% eru óánægðir. Þá kemur fram að aðeins 18% séu ánægðir með störf Fjármálaeftirlitsins en 55% óánægðir.
Tekið er fram að ánægja með störf bæði embættis sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitsins aukist með hækkandi aldri svarenda.
Spurt var um viðhorf fólks til þessara embætta í ágúst, en spurt var: „Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ertu með störf embættis sérstaks saksóknara/Fjármálaeftirlitsins?“
Bankar verði færðir í eigu erlendra kröfuhafa
Þá var spurt um viðhorf fólks gagnvart því að Íslandsbanki og Kaupþing verði færðir í eigu erlendra kröfuhafa.
Fram kemur að 47% svarenda séu hlynntir því að Kaupþing verði fært í eigu erlendra kröfuhafa og 22% andvígir. Þegar kemur að Íslandsbanka eru 44% hlynnt því að hann verði færður í eigu erlendra kröfuhafa en 25% andvíg.
Karlar eru hlynntari því en konur. Eins eru kjósendur B og S lista hlynntari málinu en kjósendur annarra flokka. Andstaðan er mest meðal kjósenda O og V lista.
Um netkönnun var að ræða, sem var gerð dagana 12. - 26. ágúst. Svarhlutfall var 57,1% og úrtaksstærð 2.504.