Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur birt nýja skýrslu um íslensk efnahagsmál. Þar kemur m.a fram að á sama tíma og heimsbúskapurinn hafi gengið gegnum meiriháttar truflanir á fjármagnsmörkuðum og efnahagssamdrátt, hafi Ísland orðið fyrir bankahruni sem eigi sér enga hliðstæðu og þjóðarbúið fallið niður í djúpa efnahagslægð. Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins.
Þar segir einnig að örlög bankakerfisins hafi að hluta til ráðist af því að fjármagnsmarkaðir heimsins lokuðust skyndilega. Stórhuga sókn íslensku bankanna ásamt óskilvirku bankaeftirliti hafi hins vegar gert þá mjög berskjaldaða.
Þá hafi hrunið leitt í ljós að fjármálaeftirlitið hér á landi hafi verið veikbyggt og þarfnast leiðréttingar. Einnig hafi bankarnir verið orðnir svo stórir í hlutfalli við þjóðarbúið að ekki var hægt að bjarga þeim þegar þeir lentu í erfiðleikum. Þeir hafi einnig orðið svo flóknir og samtengdir að bankaeftirlitsmenn með takmörkuð völd hafi ekki lengur haft í fullu tré við þá.
Í framtíðinni muni fjárhagslegur stöðugleiki nást með því að bankakerfið verði minna og einfaldara, eftirlit strangara og komið verði á traustum ramma með efnahagsstefnu sem beinist að kerfislægum og einstökum áhættum.
Í skýrslunni kemur einnig fram að mikilvægt sé að bankakerfið komist sem fyrst í eðlilegt horf til þess að þjóðarbúið nái sér aftur á strik. Stofnun þriggja nýrra banka með flutningi allra innlendra innlána og krafna á innlenda aðila sé skilvirk en tímabundin lausn sem stanist ekki til lengri tíma. Nýju bankarnir hafi að geyma gallaðar eignir, þeir séu of stórir og ættu ekki að vera að eilífu í ríkiseigu. Stjórnvöld þurfi að stíga nauðsynleg skref í átt að einkavæðingu og ættu að hvetja erlenda banka til þátttöku.
Þá segir þar að mikilvægt sé að aflétta gjaldeyrishömlum hið fyrsta þannig að hægt verði að taka aftur upp eðlileg fjárhagssamskipti við erlenda markaði.
Einnig segir þar að standi til að Ísland gerist aðili að ESB sé æskilegt fyrir landið að leita aðgangs að evrusvæðinu svo fljótt sem unnt er til að njóta efnahagslegs hagræðis þess. Þá muni Ísland njóta hagræðis af trúverðugleika evrópska seðlabankans og einnig af lægra áhættuálagi.
Í skýrslunni er einnig fjallað um þörfina á verulegu átaki í ríkisfjármálum til að koma fjármálum hins opinbera aftur á sjálfbæran grundvöll og nauðsyn þess að leiðrétta grundvöll ríkisfjármála. Segir þar að í upphafi muni mest af þeirri leiðréttingu eiga sér stað gegnum skattahækkanir, en að þegar fram í sæki verður niðurskurður á útgjöldum einnig að aukast. Mikið rými sé til dæmis til að skera niður útgjöld til heilbrigðis- og menntamála.