Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna, þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu, lækkaði gríðarlega mikið milli áramnna 2007 og 2008 og var -21,78% á árinu 2008 samanborið við 0,5% á árinu 2007. Þetta kemur fram í skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2008 sem birt er á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.
Þar kemur fram að meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár hafi verið 2,5% og meðaltal sl. 10 ára 3%.
Heildareignir lífeyrissjóðanna námu tæplega 1.600 milljörðum króna í árslok 2008 samanborið við um 1.700 milljarða í árslok 2007. Nemur tapið um 6% sem samsvarar neikvæðri raunávöxtun um 19% miðað við vísitölu neysluverðs.Iðgjöld lífeyrissjóðanna lækkuðu um 26% á milli ára eða úr 146 milljörðum króna í árslok 2007 í tæplega 116 milljarða króna í árslok 2008.
Meginástæða þessarar miklu lækkunar er sú að árið 2007 seldu tveir lífeyrissjóðir eignarhlut sinn í Landsvirkjun, þ.e. Lífeyrissjóðir starfsmanna Reykjavíkurborgar sem seldu hlut sinn fyrir 23,9 milljarða og Lífeyrissjóðir starfsmanna Akureyrarbæjar sem seldu hlut sinn fyrir 3 milljarða. Greiðslan vegna sölunnar var færð sem innborgun frá Akureyrarbæ og Reykjavíkurborg undir iðgjöld.
Útgreiddur lífeyrir var 53 milljarðar árið 2008 en var rúmlega 46 milljarðar árið 2007.
Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila á árinu 2008 jókst um 7,5% og nam 256 milljörðum króna samanborið við 238 milljarða í árslok 2007. Séreignarsparnaður í heild nam um 16% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2008. Iðgjöld til séreignarlífeyrissparnaðar hækkuðu úr 32,6 milljörðum króna í 33,4 milljarða króna á árinu 2008, eða um 2,4%.