„Úrslitatilraun til að flæma okkur úr landi“

„Tilgangur alls þessa dæmalausa málatilbúnaðar er úrslitatilraun til þess að flæma Aalborg Portland frá íslenskum markaði. Öllu skal til tjaldað og í engu sparað,“ Bjarni Óskar Halldórsson, framkvæmdastjóri Aalborg Portland á Íslandi. Hann segir ásakanir forsvarsmanna Sementsverksmiðjunnar á Akranesi þess efnis að Aalborg Portland stundi undirboð á sementi á Íslandi, bull.

Sannkallað stríð hefur ríkt milli Sementsverksmiðjunnar á Akranesi og Aalborg Portland, sem flytur inn sement frá Danmörku. Ásakanir hafa gengið á víxl og í gær sagði framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar að ekki yrði betur séð en Aalborg Portland hefði stundað stöðug undirboð allt frá þeim tíma er fyrirtækið kom á ný inn á markaðinn á Íslandi árið 2000.

Tilraun til að koma á einokun með sementssölu

Framkvæmdastjóri Aalborg Portland vísar þessu á bug sem bulli og dyljum og tilgangurinn virðist sá einn að flæma Aalborg úr landi og koma á ný á einokun með sementssölu á Íslandi.

„Eina ferðina enn sætir Aalborg Portland á Íslandi ásökunum frá forsvarsmönnum Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Nú eru uppi dylgjur um undirboð og óheiðarleika. Það er dapurlegt að Sementsverksmiðjan skuli grípa til slíkra óyndisúrræða á sama tíma og ríkisstjórn Íslands ræðir opinbera aðstoð við verksmiðjuna að kröfu Skagamanna og ráðherrann Jón Bjarnason og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Jón Steindór Valdimarsson, lýsa opinberlega að þeir vilji íslenska einokun á sementi. Áður höfðu formaður Verkalýðsfélags Akraness og bæjarstjórinn upp á Skaga krafist þess að stjórnvöld beiti handafli til þess að neyða Steypustöðina hf. úr viðskiptum við Aalborg Portland yfir í viðskipti við Sementsverksmiðjuna“ segir Bjarni Óskar Halldórsson, framkvæmdastjóri Aalborg Portland á Íslandi.

Segir Sementsverksmiðjuna stunda undirboð

Framkvæmdastjóri Aalborg Portland segir málflutning forsvarsmanna Sementsverksmiðjunnar með ólíkindum. Vegir samkeppni séu órannsakanlegir og býsna bugðóttir á Íslandi.

Hann segir vandlifað í íslenskum samkeppnisheimi. Fyrir skömmu hafi tveir af þremur stærstu viðskiptavinum Aalborg Portland á Íslandi, Loftorka og Steypustöðin Borg, farið úr viðskiptum vegna þess að Sementsverksmiðjan bauð betri verð.

„[Sementsverksmiðjan] undirbauð  þrátt fyrir bullandi hallarekstur í góðærinu undanfarin ár og skuldasöfnun á útrásarslóðum, sbr lánabók Kaupþings. Og nú skal Steypustöðin þvinguð með handafli í viðskipti upp á Akranes,“ segir framkvæmdastjóri Aalborg Portland.

Sementsverksmiðjan ætti að hefja útflutning hið fyrsta

Hann segir að Sementsverksmiðjan hafi birt marklausa heimatilbúna töflu um samanburð á verðlagningu á sementi til  Íslands  annars vegar og hins vegar  af lager í Danmörku.

„Það er sitthvað dreifing og smásala, samanber að hvert mannsbarn veit að fiskur er dýrari í fiskbúð en á fiskmarkaði. Eða hverjum dettur í hug að stærsti sementskaupandi sætti sig við listaverð líkt og neytandi sem kaupir sement í poka. Ég leyfi mér þó að benda forráðamönnum Sementsverksmiðjunnar á að hefja útflutning á sementi hið fyrsta, úr því verð á erlendum mörkuðum eru jafnhá og haldið er fram í fréttatilkynningu um meint undirboð Aalborg Portland á Íslandi,“ segir Bjarni óskar Halldórsson.

Úrslitatilraun til að flæma okkur af markaði
 
Hann segir kjarna málsins þann að flæma eigi Aalborg Portland frá íslenskum markaði. Öllu skuli til tjaldað og í engu sparað, þrátt fyrir bágborinn efnahag Sementsverksmiðjunnar, skuldasöfnun og kostnað sem af hlýst. Skipti þá engu þó að framleiðslukostnaður sé hærri en söluverð.

„Almenningi er ætlað að fá reikninginn í hausinn og bera fórnarkostnaðinn sem fyrr, líkt og þegar ríkið seldi verksmiðjuna árið 2003. Hér skal minnt á úttekt International Cement Review um langhæsta sementsverð í Evrópu fyrir daga samkeppni og fullyrt að Ísland væri “extreme example of a small distant market with raw materials that are far from ideal.” Það skal fullyrt að Íslendingar vilja ekki aftur það ástand þegar Sementsverksmiðjan sat að einokun á allri sementssölu, íslenskri þjóð til stórfellds skaða. Það  er staðfastur ásetningur Aalborg Portland Íslandi að halda áfram að stunda heilbrigð viðskipti hér eftir sem hingað til,“ segir Bjarni Óskar Halldórsson,
framkvæmdastjóri Aalborg Portland á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka