Útlendingar tilbúnir að greiða hærra verð

„Ástæða þess að fiskurinn er fluttur úr landi er einföld. Kaupendur á ferskfiskmörkuðum okkar erlendis eru tilbúnir að greiða hærra verð en Jón Steinn Elíasson í Toppfiski, formaður SFÚ. Það þýðir að sjómenn fá hærri laun og útgerðir auknar tekjur. Markmið útvegsmanna hlýtur alltaf að vera að ná hámarks arðsemi út úr aflanum.“

Þetta segir Sigurður Sverrisson, upplýsingafulltrúi LÍÚ, þegar borin er undir hann gagnrýni sem fram kom hjá Jóni Steini Elíassyni, formanni Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, í Morgunblaðinu sl. föstudag.

Í viðtalinu sagði Jón Steinn að strandveiðarnar í sumar hafi verið það jákvæðasta í íslenskum sjávarútvegi í langan tíma. Þessu er Sigurður ekki sammála. „Með strandveiðunum var einfaldlega verið að færa afla og tekjur frá atvinnuútgerðum og sjómönnum til frístundaveiðimanna,“ segir Sigurður. Hann segir að áhugi Jóns Steinars á strandveiðunum sé skiljanlegur. „Hann vill fá fiskinn á sem allra lægsta verði á markaði. Þar hafa strandveiðarnar reynst honum haukur í horni. Þegar veiðarnar hófust að nýju hinn 4. ágúst eftir hlé hrundi verð á þorski á fiskmörkuðum. Verðið hækkaði aftur þegar þeim lauk.“

Sigurður Sverrisson segir að reynslan eigi eftir að leiða í ljós að strandveiðitilraunin í sumar hafi verið sóun á verðmætum hvar sem á hana sé litið.

„Hverju skilar það að gera út 500 báta, sem engin þörf er fyrir, í nokkra daga á ári,“ spyr Sigurður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert