Árni kjörinn formaður Heimdallar

Árni Helgason.
Árni Helgason.

Árni Helgason var í gærkvöldi kjörinn formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, með 58,5% atkvæða, en 930 atkvæði voru greidd á aðalfundi félagsins.

Aðrir stjórnarmenn voru kjörnir: Diljá Mist Einarsdóttir, Hafsteinn Gunnar Hauksson, Helga Lára Haarde, Jón Benediktsson, Thelma Hrund Kristjánsdóttir, Einar Leif Nielsen, Guðmundur Egill Árnason, Jan Hermann Erlingsson, Anna Ásthildur Thorsteinsson, Sandra Hlín Guðmundsdóttir og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. 

Í ýtarlegri stjórnmálaályktun, sem samþykkt var á aðalfundinum, er m.a. hörmuð hjáseta meirihluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins í atkvæðagreiðslu á Alþingi um Icesave-frumvarpið.

Þá er þeirri skoðun lýst, að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sé ógæfuspor og að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið utan sambandsins en innan þess. Segist Heimdallur telja,  að ríkisstjórnin hafi sýnt af sér fádæma bráðræði með því að etja þjóðinni út í slíka för án fyrirheits, í stað þess að taka á vandanum heima fyrir. 

Einnig er  skorað á Alþingi að hafa hag skattgreiðenda að leiðarljósi við gerð fjárlaga fyrir næsta ár. Mikið svigrúm sé til niðurskurðar og sparnaðar í rekstri hins opinbera, enda hafi samneysla Íslendinga aukist mjög úr hófi fram á síðustu árum. Ný lífskjarasókn verði ekki grundvölluð á háum sköttum eða lífsháttastjórnun núverandi vinstristjórnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert