Handfærabátar frá Húsavík voru að fiska ágætlega í dag, aðallega ufsa, sem þeir fengu á Mánáreyjahryggnum. Lundey ÞH 350 var að veiðum við Mánáreyjar og um kl. 12:30 þegar átti að gangsetja eftir eitt rekið fór báturinn ekki í gang vegna straumsleysis.
Sæborg ÞH 55 sem einnig var á handfæraveiðum kom Lundey til aðstoðar og dró hana til lands og komu bátarnir til hafnar á Húsavík um kl. 17.
Annars er mikið líf við Húsavíkurhöfn nú í upphafi kvótaárs. Auk handfærabátanna róa bátar með línu og net auk þess sem dragnótaveiðar voru leyfðar í innanverðum Skjálfandaflóa 1. september og hafa dragnótabátarnir verið að fiska vel.