„Ekkert óeðlilegt við greiðslur LV“

„Við vís­um því al­gjör­lega á bug að það sé eitt eða neitt óeðli­legt við þess­ar greiðslur. Sam­kvæmt skipu­lags- og bygg­ing­ar­lög­um þá ber fram­kvæmd­araðila, líkt og Lands­virkj­un er í þessu til­felli, að standa straum af kostnaði sveit­ar­fé­lags við breyt­ing­ar á skipu­lagi,“ seg­ir Þor­steinn Hilm­ars­son, upp­lýs­inga­full­trúi Lands­virkj­un­ar um greiðslur til Skeiða- og Gnúp­verja­hrepps í tengsl­um við skipu­lags­vinnu vegna virkj­un­ar­áforma.

Lands­virkj­un áform­ar að byggja þrjár virkj­an­ir í Neðri Þjórsá. Tvær þeirra, Hvamms- og Holta­virkj­un, eiga að vera í Skeiða- og Gnúp­verja­hreppi. Breyta þarf deili­skipu­lagi vegna áformanna sem sveit­ar­stjórn Skeiða- og Gnúp­verja­hrepps hef­ur nú samþykkt. Virkj­an­irn­ar hafa verið mjög um­deild­ar á Suður­landi.

Sig­urður Jóns­son, fyrr­ver­andi odd­viti Skeiða- og Gnúp­verja­hrepps, sté fram í gær í frétt­um Stöðvar 2 og sagði sveit­ar­stjórn­ar­menn hafa þegið greiðslur frá Lands­virkj­un fyr­ir óbókaða fundi. Hver um sig hefði fengið 200 þúsund króna greiðslu frá LV fyr­ir að sitja tíu fundi. Þá hefði LV greitt hreppn­um ann­an kostnað, sam­tals um ell­efu millj­ón­ir króna, m.a. vegna lög­fræðikostnaðar.

Upp­lýs­inga­full­trúi LV seg­ir að hreppn­um hafi sam­tals verið greidd­ar 11.004.210 krón­ur vegna vinnu árin 2006, 2007 og 2008.

„Þarna kom­um við inn með áform sem valda því að sveit­ar­fé­lagið þarf að leggja í vinnu sem er langt um­fram það sem á við um al­menna stjórn­sýslu hjá þeim. Við erum að greiða fyr­ir sér­staka fundi sem við boðum til og fyr­ir sér­staka vinnu sem inna þarf af hendi. Það er eðli­legt að við greiðum þann kostnað sem hlýst af slíkri vinnu, um­fram al­menna stjórn­sýslu. Þetta er gert á grund­velli ákveðins ramma­samn­ings við viðkom­andi sveit­ar­fé­lag, sem gef­ur okk­ur færi á að sjá um­fangið. Sveit­ar­fé­lagið ger­ir að sjálf­sögðu grein fyr­ir þeim kostnaði sem af vinn­unni hlýst. Það er hins veg­ar ekki rétt að Lands­virkj­un hafi greitt beint til ein­stakra sveit­ar­stjórn­ar­manna. Greiðslurn­ar voru innt­ar af hendi til sveit­ar­stjórn­ar á grund­velli ramma­samn­ings,“ seg­ir Þor­steinn Hilm­ars­son, upp­lýs­inga­full­trúi LV.

Í 23. grein skipu­lags- og bygg­ing­ar­laga seg­ir að sveit­ar­stjórn beri ábyrgð á og ann­ist gerð deili­skipu­lags. Land­eig­anda eða fram­kvæmd­araðila sé þó heim­ilt að gera til­lögu til sveit­ar­stjórn­ar að deili­skipu­lagi eða breyt­ingu á deili­skipu­lagi á sinn kostnað.

„Þetta hef­ur verið með svipuðum hætti þar sem við höf­um staðið í fram­kvæmd­um. Það má líka benda á stjórn­sýslu­stofn­an­ir eins og heil­brigðis­eft­ir­lit og vinnu­eft­ir­lit þegar stór­fram­kvæmd­ir eru í gangi, þá koma til veru­leg­ar greiðslur fyr­ir það eft­ir­lit sem viðkom­andi stofn­an­ir ann­ast,“ seg­ir Þor­steinn Hilm­ars­son,

Hann bend­ir á virkj­un­ar­fram­kvæmd­ir á Aust­ur­landi í því sam­bandi og Blöndu­virkj­un, þó ann­ar lag­arammi hafi gilt þá. Greiðsla vegna virkj­un­ar­áforma á Suður­landi og vinnu þeim tengda sé því ekk­ert óeðli­leg.

„Við höf­um ekk­ert að fela, það er sjálfsagt að fólk ræði um þetta en ég held að þarna sé mik­ill mis­skiln­ing­ur á ferðinni,“ seg­ir upp­lýs­inga­full­trúi Lands­virkj­un­ar.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.
Þor­steinn Hilm­ars­son, upp­lýs­inga­full­trúi Lands­virkj­un­ar. mbl.is/Þ​or­vald­ur Örn Krist­munds­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert