Framtaldar bankainnistæður tvöfölduðust

Sú skylda var í fyrsta skipti á síðasta ári lögð á fjármálastofnanir að veita skattyfirvöldum upplýsingar um innstæður og vaxtatekjur. Þetta hafði þær afleiðingar að í stað 265 milljarða bankainnstæðna, sem taldar voru fram í árslok 2007  voru taldar fram 635 milljarða innistæður í lok ársins 2008.

Fjármálaráðuneytið segir þetta sýna, að umtalsverð vanhöld hafi verið á framtöldum innstæðum og vaxtatekjum enda hafi Seðlabankinn talið, að innstæður heimilanna, sem hefðu átt að koma fram á framtölum þeirra í innlendum innlánsstofnunum hefðu numið 508 milljörðum króna í árslok 2007.

Þá segir fjármálaráðuneytið í vefriti sínu, að innistæður heimilanna og vaxtatekjur af þeim hafi meðal annars vaxið af því að eftir bankahrunið voru miklir fjármunir sem áður voru í peningamarkaðssjóðum færðir á bankareikninga. Vaxtatekjur hafi því einnig vaxið af þeim sökum.

Samkvæmt skattframtölum voru vaxtatekjur landsmanna tæpir 45 milljarðar árið 2007 en árið eftir voru þær 109 milljarðar króna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert