Fresta afgreiðslu

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sverrir

Borgarráð Reykjavíkur hefur ákveðið að fresta um viku, afgreiðslu á sölu á þriðjungshlut í HS Orku til Magma Energy. Þett avar gert að ósk fulltrúa minnihluta í borgarráði. Rúv greindi frá.


Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á mánudag tilboð Magma Energy þriðjungshlut sinn í HS Orku. Minnihluti Samfylkingar og Vinstri grænna greiddi atkvæði gegn sölunni.

Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur, Akraneskaupstaður, Borgarnesbyggð og Reykjavíkurborg þurfa að samþykkja söluna, bæði bæjar- og borgarráð og bæjarstjórnir og borgarstjórn.

Borgarráð ræddi söluna á fundi sínum í morgun. Minnihlutinn bar fram 32 spurningar um söluna, ýmis ákvæði og forsendur samningsins við Magma. Minnihlutinn spurði m.a. um arðgreiðslur og vörslu þeirra, stöðu Hitaveitu Suðurnesja og veð í bréfum HS, núvirði samningsins við Magma Energy og hvers vegna hagkvæmt væri að selja Magma hlutinn í HS Orku.

Minnihlutinn fór fram á frestun afgreiðslu málsins og var orðið við því.

Fyrirspurnir minnihlutans um sölu á hlut OR í HS orku
Framlagning samningsins og trúnaðarákvæði

1. Hvers vegna var samningurinn ekki sendur stjórnarmönnum OR mun fyrr? Tilboðið hlýtur að hafa legið fyrir þegar tilboð Magma átti að renna út. Stjórnarmenn hefðu þá haft 10 daga til að kynna sér tilboðið en ekki eina klukkustund.
2. Ef tilboðið lá ekki fyrir eða hafði ekki verið þýtt yfir á íslensku eins og borgarstjóri bar við í umræðum í borgarstjórn. Hvaða gögn hafði þá meirihlutinn hugsað sér að leggja fyrir stjórn OR fyrir 10 dögum ef ríkistjórnin hefði ekki óskað eftir fresti?
3. Óskað er skýringa á því af hvers frumkvæði svohljóðandi ákvæði var sett inn í samninginn: “aðilar eru sammála að gera sitt besta til að halda tilveru og innihaldi þessa samnings í ströngum trúnaði“ og í hvaða tilgangi ákvæðið er fram sett?
4. Hvernig réttlætir meirihlutinn að samningur með slíku ákvæði sé lagður fram og samþykktur í fyrirtæki í almannaeigu?
5. Hvers vegna felldi meirihlutinn tillögu um að víkja þessu ákvæði til hliðar og hvernig samræmist sú ákvörðun, ákvörðun borgarstjóra um að birta samningin daginn eftir?
6. Kallar birting samningsins á endurskoðun samningstextans, sbr. gr. 10.1

Bann við opinberum málflutningi, yfirlýsingum og fréttatilkynningum án samþykkis Magma

7. Hvernig túlkar meirihlutinn 11. grein samningsins um bann við þátttöku í opinberri umræðu, bann við yfirlýsingum og fréttatilkynningum án fyrirfram samþykkis Magma?
8. Hvernig hefur meirihlutinn efnt þetta samningsákvæði?
9. Bindur samningurinn alla kjörna fulltrúa, að mati meirihlutans, eða einungis borgarstjóra og fulltrúa meirihlutans? Hvernig fellur þetta ákvæði að skyldum borgarstjóra og kjörinna fulltrúa gagnvart almenningi og kjósendum?

Vextir og ábyrgðir á 7 ára kúluláni (skuldabréfi)

10. Óskað er samanburðar á greiðslukjörum á fyrirliggjandi samningum við Magma annars vegar og Hafnarfjarðarbæ hins vegar.
11. Hvernig er rökstutt að 1,5% vextir í bandaríkjadölum séu ásættanlegir?
12. Miðað við meðalverðbólgu í Bandaríkjunum sl. 10 ár er ljóst að þetta þýðir neikvæða raunvexti, hversu neikvæðir eru raunvextirnir miðað við vænta verðbólgu í Bandaríkjunum?
13. Ljóst er að gríðarlegt gengistap mun verða af skuldabréfinu þegar gengi íslensku krónunnar hækkar. Hversu mikið verður tapið miðað við 25, 50, 75 eða 100% styrkingu krónunnar?
14. Var óskað eftir móðurfélagsábyrgð Magma á skuldabréfinu? Ef svo, hversvegna var hún ekki veitt. Ef ekki, hversvegna ekki?
15. Ekki verður sagt að 1,5% vaxtagreiðslur Magma séu mjög íþyngjandi. Þrátt fyrir það hefur Magma Sweden valkost hvenær sem er að fresta einhverri einni, tveimur eða þremur, en ekki fleiri en þremur, vaxtagreiðslum. Magma Sweden getur nýtt sér þann valkost með því að greiða ekki slíka vaxtagreiðslu þegar hún er á gjalddaga.  Ef Magma Sweden nýtir sér valkostinn mun hverri frestaðri vaxtagreiðslu verða bætt við Höfuðstólsupphæðina og vextir munu safnast upp á hana samkvæmt vaxtaprósentunni. Hvers vegna er þetta ákvæði inn í samningnum og gæti Magma Sweden valið að greiða ekki vexti fyrr en á fjórða ári samningsins?
16. Samkvæmt samningnum fæst ekki betur séð en að standi Magma ekki við skuldbindingar eða fari í vanskil skuli þeir greiða vanskilavexti sem eru aðeins 5% á ári. Óskað er eftir samanburði á vanskila vöxtum sem OR greiðir Hafnafjarðarbæ í samningi þeirra um hlut í HS orku. Jafnframt er óskað eftir skýringum á því hvernig 5% vanskila prósenta getur talist eðlileg?
17. Hvaða trygging er fyrir því að samkvæmt þessum kjörum sé það ekki hagur Magma að fara í vanskil, sbr. “Ef Vanefndir verða, eins og lýst er að ofan, og hvenær sem er þar á eftir ef slíkt atvik er áframhaldandi, getur handhafinn með tilkynningu til Magma Sweden gjaldfellt alla skuld sem er útistandandi á þessu veðtryggða skuldabréfi og lýsa það allt gjaldfallið og greiðanlegt án tafar  ásamt uppsöfnuðum vöxtum á því og öllum öðrum upphæðum sem eru greiðanlegar samkvæmt því. Við slík atvik skal Magma Sweden greiða raunskilavexti á slíka upphæð eða upphæð sem er hraðað frá gjalddaganum þar til handhafinn móttekur greiðslu. Vanskilavaxtaprósentan skal vera 5% á ári.”

Arðgreiðslur og varsla þeirra

18. Samkvæmt 2. grein vörslusamnings getur kaupandi greitt sér arð. Hvenær getur kaupandi greitt út arð og háð hvaða skilyrðum?
19. Verða arðgreiðslur notaðar til að greiða inn á skuldabréfið?
20. Vörsluaðili geymir hlutabréfin og arðgreiðslur, og sér til þess að arður sé greiddur út til kaupandans ef ákveðin skilyrði séu uppfyllt. Í 4.6 kemur fram að: "Seljandinn viðurkennir og samþykkir að vörsluaðilinn er ráðgjafi kaupandans." Hér virðist um augljósa hagsmunaárekstra að ræða ef vörsluaðilinn er ráðgjafi kaupandans á sama tíma og hann á að vera vörsluaðili um tryggingu seljandans. Hvernig réttlæta menn þetta fyrirkomulag? Óskað er eftir rökstuðningi með tilliti til þess að vörsluaðili virðist sjálfur mjög vel varin fyrir skaðabótaskyldu samkvæmt vörslusamningi?
21.Er það réttur skilningur að Magma geti greitt út arð gefið að tryggingin sé 1,3 sinnum lánið?
22. Er það réttur skilningur að sé tryggingin lægri en lánið þá hafi Magma 12+3 mánuði til að leiðrétta það en þarf aðeins að bæta trygginguna um 1,1 af andvirði lánsins?
23. Hvað ef eitthvað kemur þá í veg fyrir að Magma greiði sér arð á þeim 15 mánuðum sem fyrirtækið hefur til að “leiðrétta tryggingar”?
24. Að því gefnu að ofangreindar tryggingar séu veittar, hvaða tryggingar eru í samningnum fyrir því að ekki verði um stórfeldar arðgreiðslur út úr HS að ræða á næstu árum?

Staða Hitaveitu Suðurnesja og veð í bréfum HS

25. Samkvæmt samningnum skulu útistandandi atriði í sambandi við lánaaðstöðu Félagsins hafa verið leyst að formi og efnislega þannig að með sanngirni megi teljast vera fullnægjandi fyrir Kaupandann.  Kaupandinn er meðvitaður um að slík lausn kann að fela í sér sanngjarna hækkun á vaxtamuninum á lánaaðstöðunni og veðsetningu ákveðinna eigna Félagsins sem veð fyrir lánaaðstöðuna, að því tilskildu að slík lausn hafi ekki veruleg áhrif á matsverð hlutabréfa Félagsins. Af þessu tilefni er spurt um hver sé staðan gagnvart kröfuhöfum HS?
26. Er það réttur skilningur að falli verðgildi HS orku og veð í bréfunum fari undir vefþekju þá dugi að setja fleiri bréf í HS orku sem veð?
27. Er það réttur skilningur að tryggingin sé metin af matsmanni Magma. Ef svo, væri ekki eðlilegra að matsmaður seljandans væri fengin til verksins frekar en matsmaður ráðin af kaupanda sem hefur hagsmuni af því að fegra stöðuna, sjá: Ef hlutfall Verðmætis veðsettra hlutabréfa í tilteknu Verðmati og Höfuðstólsupphæðar Veðsetta skuldabréfsins á Matsdegi sem er notuð fyrir slíkt Verðmat („Hlutfall umfangs“) er minna en 1.0 á móti 1.0, þá skal Magma Sweden sjá til þess að innan 3. (þriggja) mánaða frá fyrsta ársafmæli slíks Matsdags sé það að minnsta kosti 1.10 á móti 1.00 og innan 3. (þriggja) mánaða frá öðru ársafmæli slíks Matsdags, sé Hlutfall umfangs reiknað á slíkum Matsdegi að minnsta kosti 1.30 á móti 1.0.  Ef Hlutfall umfangs er jafnt eða hærra en 1.30 á móti 1.00 á einhverjum Matsdegi skal Magma Sweden ekki hafa frekari skuldbindingar samkvæmt þessu ákvæði nema Hlutfall umfangs falli niður fyrir 0.9 á móti 1.0 á seinni Matsdegi.  Til að standa við skuldbindingu sína samkvæmt þessu ákvæði getur Magma Sweden hvenær sem er sett að veði fleiri hlutabréf í HS Orka hf. eða aðra tryggingu sem er ásættanleg fyrir Handhafa sem breytir af sanngirni, og mun slík trygging þá verða hluti af Veðsetningunni (skv. skilgreiningu að neðan).  Verðmæti allra hlutabréfa í HS Orka hf. sem þannig eru veðsett verður miðað við sama verðmæti hvers hlutabréfs í HS Orka hf. og sýnt er í nýjasta Verðmati, og verðmæti  allra annarra trygginga sem þannig eru veðsettar skal verða ákveðið með samkomulagi milli Magma Sweden og Handhafans sem breytir af sanngirni.

Núvirði samningsins

28. Á fundi stjórnar OR var lögð fram úttekt KPMG á reiknilíkani fjármálsviðs OR. Til þessa álits hefur verið vísað í fjölmilum og því er spurt og óskað eftir svörum KPMG, endurskoðenda OR: í minnisblaði vegna yfirferðar á reiknilíkani segir “Almennt tíðkast við mat á skuldabréfum að núvirða sjóðstrymi þess með ávöxtunarkröfu sem tekur að fullu tillit til mótaðila áhættu og sérstakar skilmála sem lánasamningur kann að innihalda (s.s tryggingar).” Er það mat KPMG að eðlilegt tillit hafi verið tekið til áhættuálags skuldara í útreikningum OR?
29. Er það mat KPMG að grunnvextir séu eðlilegur og fullnægjandi ávöxtunarkrafa til að núvirða með? (eins og um kaup á ríkisskuldabréfum frá bandaríska ríkinu sé að ræða)?  
30. Tryggingin sem liggur fyrir greiðslu skuldabréfsins eru bréf í HS orku, fyrirtæki sem samkvæmt fréttum uppfyllir ekki lánaskilmála í dag. Hvernig metur KPMG þið markaðsávöxtunarkröfu á skuldabréf þar sem tryggingin er hlutabréf í HS Orku gefið að síðustu viðskipti voru á genginu 4,7 (á milli Magma og Geysir Green) sem er 75% af því gengi sem verið er að verðmeta bréfin á sem tryggingu?

Réttarstaða gagnvart Hafnarfjarðarbæ

31. Óskað er eftir áliti borgarlögmanns á því hvaða áhrif framganga OR í þessu sölu og samningsferli hefur haft á réttarstöðu fyrirtækisins gagnvart Hafnarfjarðarbæ, verði ákveðið að falla frá þessum umdeildu viðskiptum?

Eignaraðilar og hluthafar HS

32. Óskað er eftir yfirliti yfir það hverjir standa að baki þeirra eignarhaldsfélaga sem eiga GGE og Magma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka