Komið hafa upp allnokkur tilvik að undanförnu þar sem bílar af dýrari tegundinni hafa verið skemmdir og þeir rispaðir með lyklum, eggvopnum eða öðrum verkfærum. Í langflestum tilvikum hafa eigendur bílanna ekki tengst bönkum eða útrásinni með neinum hætti. Að sögn Sumarliða Guðbjörnssonar hjá tjónasviði Sjóvár hafa einkum svartir og dýrir bílar orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum, t.d. Range Rover, BMW, Benz og Lexus.
„Sú ónáttúra virðist vera til í þjóðfélaginu að svona eigur fólks séu skemmdar. Töluvert er um að eggvopnum sé beitt á dýra bíla og ekki síst ef þeir eru svartir. Þetta er mér vitanlega ekki fólk sem hefur verið í umræðunni um ófarir þjóðfélagsins, heldur venjulegt launafólk. Það verður bara fyrir áreiti vegna þess að það á ákveðna tegund af ökutæki með ákveðnum lit,“ segir Sumarliði og bendir á að skemmdarfýsnin bitni á öllum almenningi á endanum. Iðgjöldin endurspegli tjónakostnaðinn.
Hjá Verði hafa komið upp nokkur mál á síðustu vikum þar sem lakk á dýrum og flottum bílum hefur verið rispað. „Við höfum fengið þær upplýsingar frá verkstæðunum að þangað hafi komið fleiri bílar sem hafi verið illa rispaðir og þá hafi greinilega verið passað upp á að tjónið yrði töluvert,“ segir Sigurður Óli Kolbeinsson, yfirmaður tjónasviðs hjá Verði.
„Bíllinn var mjög illa lyklaður,“ segir eigandi Benz C230-bifreiðar, árgerð 2003, sem varð fyrir tjóni er farið var með lykli eða eggvopni á bílinn þar sem hann stóð yfir nótt við Iðnskólann. Ekki er vitað til þess að fleiri bílar hafi verið rispaðir.
Bíleigandinn segist í samtali við Morgunblaðið aldrei hafa verið við útrásina kenndur eða átt sök á bankahruninu á nokkurn hátt. Tjónið er 300-400 þúsund kr., en það fæst bætt frá tryggingafélagi, utan sjálfsábyrgðar upp á 60 þúsund krónur.