Metnaðarfull áætlun á ís?

Rúna Jónsdóttir, fræðslu- og kynningarfulltrúi Stígamóta.
Rúna Jónsdóttir, fræðslu- og kynningarfulltrúi Stígamóta. mbl.is/Árni Sæberg

Íslensk stjórnvöld sögðu mansali stríð á hendur í mars sl. þegar Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, kynnti aðgerðaáætlun gegn mansali. Í áætluninni voru tilgreindar 25 aðgerðir sem hafa það allar að markmiði að efla möguleika stjórnvalda á að koma lögum yfir þá sem stunda mansal þannig að þeim verði refsað og tryggja fórnarlömbunum skjól og vernd.

Nú tæpu hálfu ári síðar hefur, samkvæmt upplýsingum blaðamanns, aðeins ein aðgerð verið útfærð á meðan fimm aðrar eru í vinnslu. Þannig hefur Alþingi þegar samþykkt að gera kaup á vændi refsiverð. Í vinnslu er í fyrsta lagi að skipa sérfræði- og samhæfingarteymi viðeigandi ráðuneyta, stofnana og frjálsra félagasamtaka sem hafa á yfirsýn yfir mansalsmál á Íslandi og umsjón með þeim, í öðru lagi að gera breytingar á lögum með það að markmiði að banna hvers kyns nektarsýningar á skemmtistöðum og koma í veg fyrir að þeir geri út á nekt starfsmanna, í þriðja lagi að íslensk stjórnvöld fullgildi Palermóbókunina frá árinu 2000 sem og samning Evrópuráðsins frá 2005, í fjórða lagi að settar verði siðareglur fyrir stjórnarráðið sem tryggi m.a. að kaup fulltrúa íslenskra stjórnvalda á hvers konar kynlífsþjónustu verði ekki liðin og í fimmta og síðasta lagi að íslensk stjórnvöld taki virkan þátt í alþjóðasamstarfi og stefnumótun sem miði að því að koma í veg fyrir að fórnarlömb ánetjist manseljendum.

Þetta þýðir að 19 af 25 aðgerðum áætlunarinnar hafa enn ekki komið til framkvæmda né eru í vinnslu. Samkvæmt upplýsingum blaðamanns helgast það fyrst og fremst af því að allar falla þessar aðgerðir undir verksvið sérstaks sérfræði- og samhæfingarteymis sem enn hefur ekki verið skipað, en til stendur að fullskipa í október nk. Ein helsta ástæða þess að dregist hefur að skipa teymið er að samkvæmt málefnasamningi ríkisstjórnarinnar færist ábyrgðin á mansalsmálum frá félagsmálaráðuneytinu til dómsmálaráðuneytisins 1. október nk.

„Ég held að þetta mál hafi verið sett á ís, því aðgerðaáætlunin var kynnt rétt fyrir kosningar og síðan hafa stjórnvöld róið lífróður fyrir samfélagið. Þannig að meira að segja ég, sem alltaf er að banka á dyrnar hjá þeim, hef ákveðin skilning á því,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sem sat í vinnuhópnum sem vann aðgerðaáætlunina gegn mansali. Að sögn Guðrúnar hefur henni verið boðið að sitja í fyrrgreindu sérfræðingateymi um mansal og segist hún hafa tekið því boði fagnandi, en telur miður að teymið hafi enn ekki verið kallað saman til starfa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert