Ræða lagningu hitaveitu til Skagastrandar

Út við ysta sæ. Lagning hitaveitu frá Blönduósi til Skagastrandar …
Út við ysta sæ. Lagning hitaveitu frá Blönduósi til Skagastrandar myndi bæta búsetuskilyrði á Skagaströnd og auka möguleika svæðisins t.d. á sviði ferðaþjónustu. www.mats.is

Viðræður Sveitarfélagsins Skagastrandar og stjórnar RARIK um hugsanlega lagningu hitaveitu til Skagastrandar hófust að nýju í dag eftir langt hlé. Viðræðum um verkefnið var slegið á frest í kjölfar bankahrunsins.

Skagstrendingar hafa í áratugi staðið fyrir jarðhitaleit fyrir Skagaströnd. Leitin hefur ekki borið árangur og telst Skagaströnd því til kaldra svæða.

Síðastliðin ár hafa fulltrúar Skagastrandar haft frumkvæði að viðræðum um að RARIK leggi hitaveitu frá Blönduósi til Skagastrandar, en RARIK á og rekur Hitaveitu Blönduóss.

RARIK áætlaði í árslok 2007 að stofnkostnaður vegna hitaveitu til Skagastrandar næmi rúmlega 300 milljónum króna. Við útreikning á arðsemi verkefnisins var við það miðað að stofnstyrkur ríkisins vegna 8 ára niðurgreiðslna næmi rúmlega 80 milljónum og að heimæðargjöld yrðu tæpar 40 milljónir.

Samkvæmt útreikningum RARIK vantar a.m.k. 127 milljónir króna til að verkefnið sé arðbært, ef miðað er við 6% arðsemiskröfu til 25 ára.

Málið hefur verið rætt í stjórn RARIK sem hefur samþykkt að ráðast í verkefnið ef aðrir aðilar eru tilbúnir að leggja fram 100 milljónir króna.

Í skýrslu nefndar forsætisráðherra um atvinnu og samfélag á Norðurlandi vestra sem gefin var út vorið 2008, segir að ljóst sé að hitaveita myndi bæta búsetuskilyrði á Skagaströnd og auka möguleika svæðisins t.d. á sviði ferðaþjónustu. Þá megi gera ráð fyrir að starfsemi hitaveitunnar myndi kalla á fjölgun um einn starfsmann hjá RARIK á Blönduósi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert