Segir sölu á hvalkjöti kosta mikið fé

Hvalskip á leið í land með hval á síðunni.
Hvalskip á leið í land með hval á síðunni.

Árni Finnsson, formaður Nátturuverndarsamtaka Íslands, segir að það verði mjög kostnaðarsamt að selja afurðir af langreyðum á Japansmarkað. Útilokað sé að íslensk stjórnvöld séu þess nú umkomin að bæta við þau hundruð milljóna króna sem hvalveiðar hafi kostað íslenska þjóðarbúið á undanförnum árum.

Árni segir í grein í Fiskifréttum í dag, að efri mörk framboðs á langreyðarkjöti á Japansmarkaði sé 116,4 tonn á ári eða sem nemur afurðum af 13 langreyðum frá Íslandi og nærri tvisvar sinnum það magn sem Kristján Loftsson flutti út í maí 2008.

Hann segir að japönsk stjórnvöld hafi um árabil reynt að blása lífi í markað fyrir hvalaafurðir með auglýsingaherferðum, útgáfu matreiðslubóka, ókeypis úthlutun á hvalkjöti til leikskóla og elliheimila o.s.frv. en allt án árangurs. Þarlend stjórnvöld hafi hins vegar lokað markaðsskrifstofu fyrir hvalkjöt eftir að henni mistókst að auka eftirspurn.

„Nú skal viðurkennt að íslenskir viðskiptajöfrar kalla ekki allt ömmu sína í útrásinni en í ljósi hnignandi markaðar fyri hvalkjöt í Japan og þess að Japanar eru ekki hættir veiðum á langreyði – þeir segja þvert á móti að þeir muni halda slíkum veiðum áfram – verður að draga þá ályktun að markaðassetning Kristjáns Loftssonar á afurðum sínum verði bæði dýr og langvinn. Kristján Loftsson er því í vanda staddur. Hann gæti sótt inn á þann hluta markaðarins sem Japanir selja sitt langreyðarkjöt á og þannig ógnað stöðu heimamanna og hann gæti reynt hið ómögulega; að stækka markað fyrir hvalkjöt í Japan en þar hefur Japönum sjálfum mistekist. Báðir þessir kostir eru mjög kostnaðarsamir," segir Árni Finnsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka