Sparnaðarkröfum mætt með hagræðingu

Forstöðumenn heilbrigðisstofnana á fundi í dag.
Forstöðumenn heilbrigðisstofnana á fundi í dag.

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, sagðist á fundi með forstöðumönnum heilbrigðisstofnana í dag, leggja áherslu á að sparnaðarkröfum í heilbrigðiskerfinu yrði mætt með hagræðingu og skipulagsbreytingum sem hefðu sem allra minnstu röskun í för með sér fyrir sjúklinga.

Á vef ráðuneytisins er haft eftir Ögmundi, að stjórnendur í heilbrigðisþjónustunni standi frammi fyrir vandasamara verkefni en þeir hafi áður þurft að takast á við.

Sagði Ögmundur, að grunnþættirnir í þeirri framtíðarsýn heilbrigðisþjónustunnar, sem hann væri talsmaður fyrir, væru öryggi, gæði og virðing fyrir sjúklingum og starfsfólkinu í heilbrigðisþjónustunni. Þetta og áform um að færa þjónustu nær fólki og auka sérhæfingu á grundvelli öryggissjónarmiða varðaði veginn í skipulagsbreytingum heilbrigðisþjónustunnar sem ráðast þyrfti í.

Á fundinum voru kynntar tillögur að lagabreytingum sem lagðar verða fyrir Alþingi á haustþingi, fjallað var um launa- og skipulagsmál, og farið yfir fjárhagsstöðu heilbrigðisstofnana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert