Valnefnd Hafnarfjarðarprestakalls ákvað á fundi sínum í vikunni að leggja til að sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir verði skipaður prestur í Hafnarfjarðarprestakalli. Embættið veitist frá 1. október n.k.
Guðbjörg Jóhannesdóttir vígðist til Sauðárkróksprestakalls 5. ágúst 1998. Hún þjónaði þar í níu ár eða til hausts 2007. Frá þeim tíma hefur hún m.a. þjónað í Háteigskirkju, Selfosskirkju og Neskirkju.
Guðbjörg er með MA próf í sáttamiðlun og átakastjórnun frá Háskólanum í Kaupmannahöfn auk þess að hafa aflað sér víðtækrar símenntunar á sviðum er snerta prestsþjónustu og guðfræði.
Átta umsækjendur voru um embættið. Biskup Íslands skipar í embættið til fimm ára að fenginni umsögn valnefndar. Valnefnd skipuðu níu fulltrúar Hafnarfjarðarprestakalls ásamt prófasti Kjalarnessprófastsdæmis.