Yfirlýsingin hefur ekkert lagalegt gildi

Ólafur Ragnar Grímsson við setningu Alþingis.
Ólafur Ragnar Grímsson við setningu Alþingis. mbl.is/Kristinn

 Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, staðfesti í gær lög um ríkisábyrgð á lán Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu. Um leið gaf hann út skriflega yfirlýsingu. Þar er bent á að í lögunum um ríkisábyrgð séu margvíslegir fyrirvarar. Samstaða hafi náðst á Alþingi og utan þess um að afgreiða lögin í krafti þessara fyrirvara. Eðlilega sé þó enn andstaða við málið „eins og undirskriftir um 10.000 Íslendinga, sem forseta hafa borist, eru meðal annars til vitnis um“. Þá segir í yfirlýsingunni: „Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.“

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild HÍ, taldi að yfirlýsing forsetans hefði ekkert gildi umfram fyrirvarana sem Alþingi setti. Með yfirlýsingunni sé forsetinn að láta afstöðu sína í ljósi er hann undirritar lögin sem annar handhafi löggjafarvalds ásamt Alþingi.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, var einnig á því að yfirlýsing eins og sú sem forsetinn gaf hefði ekkert stjórnskipulegt gildi.

„Þetta er bara pólitísk yfirlýsing hans um að hann hafi ákveðið að verða ekki við tilmælum um að skrifa undir og á væntanlega að vera skýring hans á því hvers vegna hann hafi ekki gert það,“ sagði Gunnar Helgi.

 Hann telur að forsetinn sé í ákveðnum vanda vegna rökstuðnings hans 2004 þegar hann neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin. Þá voru rökin þau að málið væri mikilvægt og að það væri gjá milli þings og þjóðar. Aðstæður nú og þá séu að ýmsu leyti hliðstæðar. „Þetta [ríkisábyrgðin] er augljóslega mikilvægt mál og það virðist vera töluverður mismunur á skoðunum Alþingis og skoðunum almennings. Þá vaknar spurningin: Af hverju bregst hann öðru vísi við en 2004? Þetta virðist vera hans tilraun til að koma til móts við þá gagnrýni.“

Vegna yfirlýsingar forsetans segja ábyrgðarmenn kjosa.is að engin afstaða hafi verið tekin með eða á móti Icesave-frumvarpinu heldur að málinu sé vísað til þjóðarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert