Nýju bankarnir, sem reistir voru á grunni innlendrar starfsemi föllnu bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, neita að upplýsa hversu miklar skuldir hafi verið afskrifaðar í bönkunum frá því þeim var formlega komið á fót eftir hrunið í október í fyrra.
Morgunblaðið sendi fyrirspurn til allra bankanna þriggja þar sem spurt var, hversu mikið þeir hefðu afskrifað og hvaða verklag bankarnir styddust við þegar kæmi að endurskipulagningu fyrirtækja sem væru í rekstrarvanda, ef fyrirsjáanlegt væri að afskrifta væri þörf. Bankarnir svöruðu því til að afskriftir myndu koma fram í ársreikningi en ekki væri mögulegt að gefa það upp að svo stöddu hversu miklar þær væru.
Ljóst er þó að gripið hefur verið til afskrifta í einhverjum tilvikum. Skilanefndir gömlu bankanna eru með fleiri mál þar sem afskrifta er þörf. Sérstaklega á það við um eignarhaldsfélög, sem stunduðu hlutabréfaviðskipti, en í mörgum tilfellum eru litlar sem engar eignir á móti skuldum. Vandinn er einnig fyrir hendi hjá fyrirtækjum sem bankarnir flokka sem „lífvænleg“. Það eru fyrirtæki með rekstur sem er oft erfiður vegna mikilla skulda, einkum vegna falls krónunnar, en grunnreksturinn er í ágætu lagi.