Fréttaskýring: Aðgerða þörf fyrir fyrirtæki og heimili

Nýju bankarnir, sem reistir voru á grunni innlendrar starfsemi föllnu bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, neita að upplýsa hversu miklar skuldir hafi verið afskrifaðar í bönkunum frá því þeim var formlega komið á fót eftir hrunið í október í fyrra.

Morgunblaðið sendi fyrirspurn til allra bankanna þriggja þar sem spurt var, hversu mikið þeir hefðu afskrifað og hvaða verklag bankarnir styddust við þegar kæmi að endurskipulagningu fyrirtækja sem væru í rekstrarvanda, ef fyrirsjáanlegt væri að afskrifta væri þörf. Bankarnir svöruðu því til að afskriftir myndu koma fram í ársreikningi en ekki væri mögulegt að gefa það upp að svo stöddu hversu miklar þær væru.

Ljóst er þó að gripið hefur verið til afskrifta í einhverjum tilvikum. Skilanefndir gömlu bankanna eru með fleiri mál þar sem afskrifta er þörf. Sérstaklega á það við um eignarhaldsfélög, sem stunduðu hlutabréfaviðskipti, en í mörgum tilfellum eru litlar sem engar eignir á móti skuldum. Vandinn er einnig fyrir hendi hjá fyrirtækjum sem bankarnir flokka sem „lífvænleg“. Það eru fyrirtæki með rekstur sem er oft erfiður vegna mikilla skulda, einkum vegna falls krónunnar, en grunnreksturinn er í ágætu lagi.

Þörf á aðgerðum

Bankastarfsmenn sem Morgunblaðið ræddi við í stóru bönkunum þremur sögðu stóran hluta fyrirtækja í miklum rekstrarvanda, ef ekki kæmi til afskrifta. Engar nákvæmar tölur hafa verið birtar um stöðu fyrirtækja en viðmælendur sögðu líklegt að 60 til 80 prósent þeirra þyrftu á aðgerðum að halda til að gera reksturinn arðvænlegan. Sérstaklega ætti þetta við um fyrirtæki með skuldir í erlendri mynt. Mörg þeirra hefðu þegar fengið að fresta greiðslu á lánum en það gengi ekki til framtíðar. Í tilfelli allra bankanna er lögð áhersla á að grípa til aðgerða sem byggjast á mati á því hvort fyrirtækin teljast lífvænleg, þ.e. eiga sér framtíð við eðlilegar aðstæður.

Koma til móts við heimili

Þrýstingur hefur aukist nokkuð á bankana og stjórnvöld um að grípa til aðgerða vegna erfiðrar skuldastöðu heimilanna. Í mars á þessu ári birti Seðlabanki Íslands skýrslu um stöðu heimilanna þar sem fram kemur að um 20 prósent þeirra hafi verið með neikvæða eiginfjárstöðu, miðað við fasteignamat ársins í fyrra. Líklegt er að þessi hópur stækki gangi spár Seðlabankans um verðfall á fasteignum eftir. Frá því um mitt ár 2007 hefur fasteignaverð fallið um 31 prósent að raunvirði. Fram til ársins 2011 spáir Seðlabankinn um 47 prósenta falli á fasteignaverði og því er líklegt að næstum helmingur heimila komist í neikvæða eiginfjárstöðu á næsta eina og hálfa ári. Bankarnir sögðust allir vera með margvíslegar aðgerðir í boði fyrir heimili og einstaklinga, s.s. greiðslujöfnun og frystingu. Frekari aðgerðir væru þó í undirbúningi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert