Ekkert í samningi Styrktarsjóðs hjartveikra barna og Landsbanka Íslands um fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn kveður á um lágmark í kaupum á ríkisskuldabréfum, að sögn Páls Benediktssonar, talsmanns Landsbanka Íslands hf. Formaður Neistans hafi einhliða tjáð sig opinberlega í fjölmiðlum og með því vegið að starfsmönnum bankans.
Samkvæmt upplýsingum frá bankanum hafi sjóðsstjórar haldið fund með forsvarsmönnum Styrktarsjóðsins og farið ítarlega yfir samsetningu eignasafnsins í lok maí 2008. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu stjórnar styrktarsjóðsins. Á sama fundi hafi fjárfestingarstefnan verið endurskoðuð og ný undirrituð. Stjórn sjóðsins hafi því verið vel kunnugt um fjárfestingarstefnuna. Loks hafi sjóðsstjóri eignasafnsins skrifað stjórn sjóðsins ítarlegt bréf í desember 2008 þar sem staðreyndir mála voru útskýrðar.
Páll Benediktsson sagði í gær að bankinn gæti ekki afhent samning um nýju fjárfestingarstefnuna, um væri að ræða trúnaðarskjöl meðan málið væri í dómi.
„Eftir fall bankanna þykir öllum þetta óskaplega sárt og leiðinlegt, en bankinn fór eftir reglum í einu og öllu,“ sagði Páll. „Við teljum að stjórn Styrktarsjóðsins hafi farið rangt með og farsælast hefði verið að bíða niðurstöðu dómstóla áður en fjallað yrði um málið á opinberum vettvangi,“ segir Páll Benediktsson.