Mál sem vekur upp spurningar

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra

„Mér finnst þetta mál vekja upp ýmsar spurningar sem rétt er að leita svara við,“ segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra um þær greiðslur sem fóru frá Landsvirkjun til Skeiða- og Gnúpverjahrepps í tengslum við skipulagsvinnu vegna virkjanaáforma í neðri Þjórsá.

Að mestu leyti var um lögfræðikostnað að ræða en greiðslur upp á alls 11 milljónir kr. ná til vinnu á árunum 2006 til 2008, þar sem breyta þurfti deiliskipulagi og aðalskipulagi vegna áforma um Hvamms- og Holtavirkjun í neðri Þjórsá, sem eru innan hreppsins. Sveitarstjórnin hélt tíu vinnufundi á árunum 2007 og 2008 og fengu hreppsnefndarmenn greiddar 200 þúsund krónur hver, einnig Sigurður Jónsson, fv. sveitarstjóri, sem vakti athygli á þessum greiðslum opinberlega í vikunni.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur samþykkti skipulagið og er umhverfisráðherra nú með það mál til meðferðar. Svandís segist ekki hafa kynnt sér greiðslur Landsvirkjunar til hlítar en almennt megi velta fyrir sér hvernig lítil sveitarfélög geti staðið straum af kostnaði við skipulagsvinnu. „Þau þyrftu að geta sótt í miðlægan sjóð svo að þau væru ekki háð hagsmunaaðilum um kostnað. Það er mikilvægt að farið sé vel með slíka hagsmuni og allar ákvarðanir og athafnir hafnar yfir allan vafa. Þetta dæmi vekur mann verulega til umhugsunar um stöðu sveitarfélaga í málum sem þessum,“ segir Svandís.

Undir þetta tekur Gunnar Örn Marteinsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem veltir fyrir sér hvort lítil sveitarfélög eigi að leggja í allan kostnað við undirbúning stórra framkvæmda. Eðlilegra geti verið að ríkið sjái um þann kostnað frekar en framkvæmdaaðilar sjálfir.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir fyrirtækið hafa gert svipaða samstarfssamninga við fleiri sveitarfélög í tengslum við skipulagsvinnu vegna virkjanaáforma, m.a. við Norðurhérað á Austurlandi og við sveitarfélög í Húnaþingi vegna Blönduvirkjunar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert