Máli vegna styrkja vísað til innri endurskoðununar

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon.

Máli vegna styrkja, sem Reykjavíkurborg hefur greitt til F-listans hefur verið vísað til innri endurskoðunar borgarinnar. Þetta kemur fram á heimasíðu Frjálslynda flokksins og er vísað til tilkynningar, sem flokkurinn hefur fengið frá Reykjavíkurborg. 

Framkvæmdastjórn og fjármálaráð Frjálslynda flokksins segja að Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, hafi látið greiða styrkinn fyrir árið 2008, alls 3 milljónir króna, inn á sérreikning sinn. Krefst Frjálslyndi flokkurinn þess að fá þetta fé greitt.

Ólafur hefur hins vegar sagt að styrkurinn hafi verið greiddur inn á reikning borgaramálafélags F-listans.

Á heimasíðu Frjálslynda flokksins segir, að eftir því sem næst verði komist liggi styrkurinn til Frjálslynda flokksins, sem úthlutað var í tíð Ólafs sem borgarstjóra, nú inni á reikningi á nafni félags sem stofnað var rétt fyrir úthlutun styrksins. Í samþykktum þess félags segir í 8. grein að ef félagið verði lagt niður skuli peningurinn renna til góðgerðamála.

„Vitað er með vissu að a.m.k. tveir af fjórum stjórnarmönnum í félaginu hafa sagt sig frá F-listanum. Líklegt er að sá þriðji hafi einnig gert það. Ólafur F. er einn af þeim sem sagt hafa sig úr F-listanum en megin tilgangur félagsins er að vinna ötullega að framgöngu málefna F-listans í borginni. Félagið er því án virkrar stjórnar. Ólafur hefur boðað nýtt framboð í Reykjavík og virðist stjórn Frjálslynda flokksins sem hann ætli sér að nota þá peninga sem frjálslyndum var úthlutað til þess að fjármagna það framboð. Stjórn flokksins bíður nú viðbragða Reykjavíkurborgar," segir á heimasíðu Frjálslynda flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert