Umhverfisráðherra mun á næstu dögum óska eftir frekari upplýsingum vegna skipulagstillögu Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Það er gert í ljósi úrskurðar samgönguráðuneytisins um að Flóahreppi hafi ekki verið heimilt að semja við Landsvirkjun um greiðslu kostnaðar vegna skipulagsvinnu sveitarfélagsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.
Þar segir að ráðuneytið hafi til skoðunar skipulagstillögu vegna breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem sveitarfélagið hafi óskað staðfestingar umhverfisráðherra á.
Í rammasamkomulagi milli sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar varðandi undirbúning, byggingu og rekstur Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjunar segi:
„Landsvirkjun mun greiða allan sameiginlegan útlagðan kostnað sveitarfélagsins vegna undirbúnings virkjana s.s. kostnað vegna skipulagsbreytinga og vinnu við útgáfu framkvæmdaleyfisins. Komi til ófyrirséða atvika á verktímum virkjananna, sem leiða munu til útgjaldaauka sveitarfélagsins munu aðilar hafa samráð um greiðslu þess kostnaðar.“
Fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins að að vissu leyti sé um sambærilegt tilvik að ræða og í úrskurði samgönguráðuneytisins í dag og því þyki ástæða til að skoða málið nánar.