Stúdentaráð Háskóla Íslands fordæmir fyrirhugaðan niðurskurð menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, til Háskóla Íslands á komandi skólaári. Ljóst er að niðurskurðurinn mun koma hart niður á Háskólasamfélaginu og fela í sér verulega skerta þjónustu og lakari menntun.
Þetta kemur fram í ályktun frá Stúdentaráði HÍ.
Þar segir jafnframt.:
„Í kjölfar hækkandi atvinnuleysis á Íslandi hafa stjórnvöld hvatt fólk til að ganga menntaveginn. Það þykir því fásinna að boðaður sé slíkur niðurskurður í Háskólanum á sama tíma og nýskráningum í skólann fjölgar verulega. Það er ógjörningur að mennta þá tæplega 15.000 stúdenta sem nú eru skráðir til náms í Háskólann ef þeim fylgir ekkert fjármagn frá ríkinu. Háskóli Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í uppbyggingu íslensks samfélags og ber stjórnvöldum því að tryggja skólanum það fjármagn sem nauðsynlegt er til að framfylgja því mikilvæga hlutverki.
Stúdentaráð Háskóla Íslands hvetur menntamálaráðherra til að endurskoða ákvörðun sína um niðurskurð til Háskólans og forgangsraða þess fremur ríkisfjármunum í þágu menntunar á Íslandi – en einmitt þannig má íslenska þjóðin vinna sig úr átakaveðrinu.“