Tölvuþrjótar stytta sér leið í golfinu

mbl.is/Brynjar Gauti

Óprúttnir og óþolinmóðir kylfingar hafa í einhverjum tilvikum í sumar farið framhjá vörnum skráningarkerfis golfhreyfingarinnar og náð að skrá sig og sína á eftirsóttustu tímum dagsins. Í skráningarkerfinu geta menn valið sér tíma 3 dögum fyrir leikdag. Garðar Eyland, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Reykjavíkur, segir að klúbburinn muni taka hart á þessu og loka á skráningar þessara aðila og spilamennsku þeirra á völlum klúbbsins.

„Það er deginum ljósara að menn hafa gert þetta og það er nokkuð sem við sættum okkur ekki við,“ segir Garðar. Hann sagði ekki vitað hvernig þetta hefði verið framkvæmt, en allir eigi að sjálfsögðu að sitja við sama borð hvað skráningu varðar. Nánast hefur verið fullbókað á velli GR alla daga milli kl. 14 og 18.

Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands, segir að í júnímánuði hafi fengist ótvíræðar sannanir fyrir því að einhverjir hefðu stytt sér leið til að skrá sig. Skrifaður hefði verið forritunarbútur til að komast inn fyrir varnir á skráningarsíðunni.

Tekist hefði að loka á þessa leið, en eflaust hefðu einhverjir tölvufærir menn haldið leiknum áfram. Hörður sagði að þetta hefði ekki verið vandamál fyrr en nú í sumar samfara gríðarlegri aðsókn á golfvelli landsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert