Fornleifum spillt á Hellisheiði

Hlaðni veggurinn við Húsmúlarétt sem velt hefur verið um koll.
Hlaðni veggurinn við Húsmúlarétt sem velt hefur verið um koll. Morgunblaðið/ ÓSÁ

Verktakar á vegum Orkuveitur Reykjavíkur hafa spillt fornleifum við Húsmúlarétt skammt frá Hellisheiðarvirkjun.

„Það er verið að leggja pípu þarna á svæðinu og þarna hafði verið komið fyrir möl. Svo hafa væntanlega einhverjar gröfur verið að sækja mölina og rutt hluta garðsins um koll við það,“ segir Ómar Smári Ármannsson.

Um er að hlaðinn garð, almenning, við réttina. Að sögn Ómars var Húsmúlarétt notuð langt fram á 20. öld, en ekki er vitað hvað gömul hún er. Hún teljist þó til fornleifa, enda miklu mun eldri en aldargömul.

„Það er rétt að minna á að fornleifar, þó mörgum finnist þær ekki merkilegar, njóta verndar samkvæmt lögum,“ segir Ómar og bendir á að samkvæmt þjóðminjalögum sé óheimilt að raska fornminjum. 

Fornleifarnar eru í umdæmi lögreglunnar í Árnessýslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka