Þjófar og ósáttir afmælisgestir í fangageymslum

mbl.is/Július

Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og gista tíu fangageymslur lögreglunnar. Þar á meðal þrír gestir í afmælisveislu sem voru ósáttir við störf lögreglunnar og þrír ungir þjófar sem gripnir voru við innbrot í íþróttahús Breiðholtsskóla.

Ein alvarleg líkamsárás var tilkynnt í miðborginni í nótt en þar var maður fyrst sleginn með brotinni flösku og síðan skorinn á háls með flöskubrotinu. Litlu mátti muna að illa færi þar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er vitað hverjir árásarmennirnir eru.

Talsvert var um innbrot á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Fjórir unglingspiltar á aldrinum 14-17 ára voru gripnir eftir að hafa brotið rúðu í íþróttahúsi Breiðholtsskóla en tveir þeirra viðurkenndu að hafa brotist inn í skólann. Voru pörupiltarnir með fartölvur í fórum sínum og er grunur um að þeim hafi verið stolið í öðrum skóla, Waldorfleiksskólanum við Hraunberg. Þrír þeirra gista nú fangageymslur lögreglu en sá fjórði er ekki sakhæfur og sóttu foreldrar hann á lögreglustöðina í nótt.

Tilkynnt var um innbrot í gleraugnaverslun í Blindrahúsinu við Hamrahlíð. Sást til þjófa sem höfðu sópað varningi úr versluninni í svartan ruslapoka um miðnætti. Reyndi vitni að hlaupa þá uppi en þeir náðu að sleppa en þurftu að skilja pokann eftir.

Brotist var inn í hárgreiðslustofu við Eddufell og stolið þaðan hárgeli og eins var tilkynnt um innbrot hjá Veginum við Smiðjuveg nú í morgunsárið en ekki er vitað hvort einhverju var stolið.

Um eittleytið í nótt var lögregla kölluð út á skemmtistað í austurhluta borgarinnar. Var afmælisveisla á skemmtistaðnum og reyndu óboðnir gestir að komast inn í veisluna. Endaði það með slagsmálum milli veislugesta og þeirra sem ekki voru boðnir í veisluna og var einn bitinn á látunum. Með aðstoð lögreglu var þremur óboðnum vísað burt en eitthvað voru afmælisgestir ósáttir við störf lögreglu og þurfti lögregla að handtaka þrjá þeirra og gista þeir nú fangageymslur lögreglu.

Í Hafnarfirðinum þurfti lögregla að leysa upp fjölmennt partý við Sævang en ekki þurfti að handtaka neinn veislugest þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert