Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi viðskiptaráðherra, segist hafa orðið fyrir árás nafnlausra níðinga, sem hafi logið upp á sig og rægt á netinu.
Í pistli sem Björgvin skrifar á vefinn pressan.is kemur fram að nýverið hafi hann upplifað nýja vídd í nafnlausu níði og rógburði á netinu.
„Þar er farið af algjöru miskunnarleysi í mitt einkalíf og hátt reitt til höggs. Stofnaður var þráður af netníðingi undir dulnefni á síðunni er.is. Ekkert skyldi fara á milli mála og hét þráðurinn mínu nafni og því logið blákalt upp á mig að ég hefði verið drukkinn á skemmtistað og á kvennafari að auki,“ skrifar Björgvin.
Hann bendir á að með tilkomu netsins hafi nafnlaus rógur gengið af meira afli yfir samfélagið en nokkru sinni fyrr. Huglausir vesalingar sitji nú í skjóli tölvunnar og níðist nafnlaust á hverjum þeim sem verðskuldi að mati rógberans níðið.
Björgvin segir að draga verði þá til ábyrgðar fyrir róginn og nafnlausa níðið á netinu sem
haldi úti síðunum sem geri fólki kleift að hamast á æru fólks með lygum
og róguburði í skjóli nafnleyndar. Ljóst sé að verulega þurfi að skýra
lög um ærumeiðingar og refsiábyrgð vegna hennar og muni hann beita sér að
öllu afli til þess að hún fari fram og gangi hratt.
Hann bendir á að sl. vetur hafi því kerfisbundið verið logið upp á sig í gegnum net og tölvupósta að hann hefði fengið afskrifaðar skuldir í bönkum.
„Hrein lygi sem gekk svo langt að ég skrifaði um það grein í Moggann og hér á Pressuna til að bera af mér sakir og fékk minn viðskiptabanka til að votta sannleikann. En tilgangnum með rógnum var náð. Upp á mig stóð að bera af mér róginn eftir að hann hafði grafið undan mannorði mínu og trúverðugleika sem stjórnmálamanns og eitrað allt mitt líf,“ skrifar Björgvin.