Jón Daníelsson, hagfræðingur, segist vera mun bjartsýnni en áður um stöðu mála á Íslandi. Hann segir að á meðan Icesave-málið var óleyst þá hafi ekkert verið hægt að gera. Hins vegar telji hann að samkomulagið sé mjög slæmt og að hann hefði kosið gegn því ef hann væri á þingi.
Hann segir hins vegar að mesta vandamálið sé þau gjaldeyrishöft sem hér ríki. Mestu mistökin sem gerð hafi verið hér sé setning þeirra. Þetta kom fram í Silfri Egils í dag.
Gjaldeyrishöftin haldi til að mynda ekki og auk þess þá komi þau í veg fyrir að útlendir fjárfestar setji fjármuni í íslenskt atvinnulíf. Jón segir að það besta sem Seðlabankinn geti gert í fyrramálið sé að viðurkenna það að gjaldeyrishöftin hafi verið mistök og taka þau af.
Jón segir ljóst að Ísland hafi ekki efni á því að eyða þeim peningum sem ríkið fær að láni hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og norrænu ríkjunum. Það sé glórulaust að taka lán sem þjóðin getur ekki eytt út af gjaldeyrishöftunum.