Réttir voru á nokkrum stöðum í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli um helgina og fór allt vel fram. Réttardansleikur var á Kirkjubæjarklaustri í gærkvöldi en margt var um manninn og skemmtu allir sér konunglega, að sögn varðstjóra lögreglunnar. Ekkert var um illdeilur eða slagsmál.
Tveir menn voru handteknir og játuðu að hafa ætlað í sundlaugina á Kirkjubæjarklaustri. Þeir höfðu farið inn í Íþróttahúsið og ætluðu að fara í sundlaugina en kerfi með upptöku er í lauginni. Þeir lögðu á flótta og voru handteknir daginn eftir.
Lögreglan á Hvolsvelli stóð 21 ökumann að of hröðum akstri í vikunni sem leið en sá sem hraðast ók var á 134 km hraða austan við Krikjubæjarklaustur. Hann fékk 70 þúsund króna sekt og nýtti sér afsláttinn og greiddi á staðnum 52.500.- krónur.
Frá áramótum hefur lögreglan á Hvolsvelli stöðvað 1.328 ökumenn fyrir að aka of hratt í umdæminu. Alvarlegum slysum hefur fækkað stórlega í umdæminu frá því að lögreglan tók upp hert eftirlit með of hröðum akstri, að sögn varðstjóra lögreglunnar á Hvolsvelli.