Erilsamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt, aðallega hefðbundin ölvunarverkefni og hávaðaútköll í heimahús. Til átaka kom á milli sambýlisfólks í Grafarholti rétt fyrir kl. 05 sem endaði með því að konan stakk sambýlismann í hendi eftir að hann hafði ráðist á hana með höggum og spörkum. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, en meiðsli hans voru ekki talin alvarleg.
Rúmlega hálf fimm í nótt var tilkynnt um mann sem réðist inn hjá fólki í Breiðholti. Meðan lögreglan var að yfirheyra húsráðanda barst önnur tilkynning frá konu þess efnis að maður hefði komið inn um svalir í íbúð hennar og væri að draga upp allar gardínur. Í framhaldinu tilkynnti önnur kona í sama húsi um mann sem brotist hefði inn í íbúð hennar. Reyndist um sama manninn að ræða í öllum þremur tilvikum. Lögreglan fann hann sofandi frammi á stigagangi hússins og var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann verður látinn sofa úr sér áður en hann verður yfirheyrður. Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, var klæddur bol merktum lögreglunni þegar hann fannst.
Um hálf sjö leytið var tilkynnt um tvo stráka um tvítugs sem voru að brjótast inn í bíla í Vesturbænum. Þegar lögreglan kom á staðinn höfðu strákarnir farið ránshendi um þrjá ólæsta bíla. Annar piltanna var handtekinn og að sögn lögreglunnar er vitað hver hinn er.