Fréttaskýring: Tvöföld varðstaða um sjómannaafslátt

Við gefum sjómannaafsláttinn ekki baráttulaust eftir. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að meðan staða ríkissjóðs er jafn þröng og raun ber vitni er allt undir. Verið er að skera niður í heilbrigðisþjónustu, almannatryggingum, skólamálum og hvar sem við verður komið. Við slíkar aðstæður hljóta sjónir manna að beinast líka að póstum eins og þeim afslætti á sköttum sem sjómenn njóta,“ segir sjómaðurinn Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis.

Tvöföld varðstaða

„Sjómenn hafa ágætar tekjur, til dæmis núna þegar gengi krónunnar er lágt og afurðaverð hátt. Það er ljóst að hátekjuskattur mun hafa áhrif á laun margra sjómanna. Ef afnám sjómannaafsláttar bættist við værum við einfaldlega að taka á okkur þyngri álögur en flestar aðrar stéttir,“ segir Björn Valur sem jafnhliða þingmennsku situr í stjórn Félags íslenskra skipstjórnarmanna.

Talið er að ríkissjóður verði af 1,1 milljarði króna í tekjum á ári með skattaafslætti sjómanna. Afslátturinn í ár er 987 krónur á dag, samkvæmt því sem fram kemur á vef ríkisskattstjóra. Dagar sem veita rétt til sjómannaafsláttar eru þeir sem sjómenn eru lögskráðir í áhöfn skips. Réttur til afsláttar er bundinn því að tekjur af sjómannsstörfum nemi minnst 30% af tekjuskattsstofni. Afsláttur getur mest orðið jafnhár reiknuðum tekjuskatti af launum fyrir sjómannsstörf og í ár er hámarkið 24,10% af sjómannslaunum.

Ruggar á bæði borð

„Sjómannaafsláttur hefur unnið sér hefð í skattkerfinu og þessi ívilnun er síst meiri en aðrar stéttir njóta. Ef ríkið ætlar að ná fram sparnaði liggja aðrar leiðir beinna við,“ segir Sigurður. Honum þykja þessar bollaleggingar raunar slæmar fyrir útgerðina, sem lengi hafi verið haldið í herkví umræðna um uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu, nú síðast með fyrningarleið. Sú óvissa hafi fælt fjárfesta frá greininni og afnám skattaívilnana sjómanna sé til hins sama fallin. Við núverandi aðstæður séu gjaldeyristekjur frá sjávarútveginum þjóðarbúinu lífsspursmál og mikilvægara en áður að greinin búi við örugg skilyrði.

S&S

Hverjir fá sjómannafslátt?

Þeir sem stunda sjómennsku sem er gerð út af íslensku skipafélagi njóta afsláttarins til frádráttar reiknuðum tekjuskatti af launum. Þeir sem njóta geta verið á fiskiskipum en einnig þeir sem eru lögskráðir á varðskip, rannsóknaskip, sanddæluskip, ferjur eða farskip. Jafnframt eiga hlutaráðnir beitningarmenn rétt á sjómannaafslætti.

Hver er ívilnunin?

Fyrst var sjómannaafsláttur lagður á 1954 þegar erfitt var að manna fiskiskipaflotann. Þá var ívilnunin hugsuð sem hvatning svo menn færu til sjós. Skattaafsláttur til sjómanns sem er 200 daga á sjó á þessu ári verður 196 þús. krónur

Hver eru sjónarmiðin?

Um sjómannaafslátt hefur lengi verið deilt og ganga sjónarmið þvert á flokkslínur. Þegar upp hafa komið umræður um afnám hans hafa verkalýðsfélög mótmælt harðlega. Pétur H. Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokks hefur verið andsnúinn afslættinum en aðrir samflokksmenn hafa nefnt helgan rétt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert