Vill jöfn kynjahlutföll á framboðslistum

Drífa Hjartardóttir fyrrverandi alþingismaður var endurkjörin formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.
Drífa Hjartardóttir fyrrverandi alþingismaður var endurkjörin formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Landsþing Landssambands sjálfstæðiskvenna (LS) sem haldið var í Stykkishólmi um helgina samþykkti ályktun þar sem LS fagnar framgöngu þingflokks Sjálfstæðisflokksins í Icesave-málinu og þeim fyrirvörum sem samþykktir voru við óviðunandi frumvarp ríkisstjórnarinnar frá því í sumar.

Landssambandið leggur einnig áherslu á að Alþingi sýni viðlíka samstöðu í því erfiða verki sem framundan er við fjárlagagerð. LS telur að svigrúm sé til niðurskurðar í ríkisfjármálunum og að forðast verði skattahækkanir í lengstu lög enda þoli heimilin í landinu ekki frekari álögur.

Í ályktun Landssambandsins er fólk minnt á að huga að nærumhverfi sínu og nágrönnum í þeim erfiðleikum sem margir glíma við.

Þá ætlar LS að beita sér fyrir því að samþykkt verði jafnréttisstefna innan Sjálfstæðisflokksins sem fylgt verði í öllum störfum hans. Það er lágmarkskrafa LS að efstu sæti framboðslista flokksins verði jafnt skipuð konum og körlum. Á landsþinginu var kjörin ný stjórn og var Drífa Hjartardóttir fv. þingmaður endurkjörinn formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert