Málefni Íslands verða ekki tekin fyrir á fundi framkvæmdastjórnar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þann 14. september samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu. Um misskilning er að ræða en enn er vonast til þess að Ísland komist á dagskrá stjórna AGS fyrir mánaðamót.
Að sögn Tómasar Brynjólfssonar, sérfræðings á efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu forsætisráðuneytisins, virðist sem um einhvern misskilning hafi verið að ræða. Ekki hafi staðið til að taka Ísland fyrir þann 14. september og það hafi ekki breyst.
Tómas segir að ekki sé komin tímasetning á það hvenær efnahagsáætlun Íslands verður rædd hjá framkvæmdastjórn AGS en talið var að það yrði fyrir lok september. „Við erum enn að vonast til að þetta verði tekið fyrir í september," segir Tómas í samtali við mbl.is.
Hann segir að það sé hins vegar ekki öruggt þar sem ársfundur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins verði haldinn í síðustu viku septembermánaðar og því gæti umræða um Ísland dregist fram í október.
Tómas segir að Ísland fái ekki greiddan annan hluta lánsins frá AGS fyrr en framkvæmdastjórnin hafi samþykkt áætlun Íslendinga. Eins sé ljóst að fyrsti hluti norrænu lánanna muni ekki berast hingað fyrr en eftir fundinn.
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn samþykkti á síðasta ári að lána Íslandi 2,1 milljarð Bandaríkjadala og fyrsti hluti láns AGS, 827 milljónir dala var út í nóvember á síðasta ári. Eftirstöðvarnar eiga að koma í átta jöfnum greiðslum sem verður hver að upphæð 155 milljónir dala.
Norrænu ríkin hafa heitið því að lána Íslendingum 2,5 milljarða dala og verður fjórðungur fjárhæðinnar greiddur á sama tíma og lán AGS.