Meira en 400 Íslendingar deyja árlega ótímabærum dauða vegna reykinga. Þannig deyja tíu sinnum fleiri vegna reykinga en af slysförum á Íslandi ár hvert, að því er segir í fréttatilkynningu frá Læknafélagi Íslands.
Aðalfundur og stjórn Læknafélags Íslands telja ástandið í þessum málaflokki óviðunandi og félagið hefur því boðað til Tóbaksvarnaþings næsta föstudag.
Í tilkynningu frá Læknafélaginu er talað tæpitungulaust. Þar segir:
„Á Íslandi geisar faraldur vegna reykingatengdra sjúkdóma sem kostar íslenskt samfélag tæpa 30 milljarða á ári, en tekjur ríkisins vegna tóbakssölu eru aðeins 7 milljarðar. Samkvæmt nýjum tölum frá Landspítalanum hafa 80% þeirra sem fara í hjartaþræðingu reykt. Þrír fjórðu þeirra sem liggja á lungnadeild Landspítala reykja eða hafa reykt. Hefur íslenskt samfélag efni á þessu?“
Fram kemur að reykingar séu stærsti heilbrigðisvandi þjóðarinnar. „Þrátt fyrir að skaðsemi reykinga hafi verið þekkt í rúma hálfa öld reykja enn um 20% þjóðarinnar að staðaldri. Tuttugu unglingar ánetjast tóbaki hér á landi í hverri viku. Helmingur þeirra mun látast fyrir aldur fram úr reykingatengdum sjúkdómum eins og hjartasjúkdómum, lungnasjúkdómum og krabbameini.“
„Þrátt fyrir mörg framfaraskref í tóbaksvörnum er staðreyndin sú að borgarar þessa lands mega reykja á almannafæri og valda með því þeim sem ekki reykja miklum óþægindum.
Komið hefur í ljós að eftir að hætt var að reykja á veitingahúsum og skemmtistöðum á Íslandi hefur bráðum kransæðaþræðingum fækkað um 20% meðal karlmanna sem ekki reykja. Þetta sýnir hvaða árangurs má vænta af því að draga enn frekar úr reykingum.“
Tóbaksvarnarþing Læknafélags Íslands verður næstkomandi föstudag. Þangað verður boðið forsvarsmönnum stjórnmálaflokka, fulltrúum stéttar- og sveitarfélaga, fulltrúum frá skólum og íþróttahreyfingunni, „til að samhæfa aðgerðir til að stöðva þennan faraldur. Þar verður m.a. rædd sú hugmynd að tóbak verði tekið úr almennri sölu á Íslandi sem markviss forvarnaraðgerð,“ segir í tilkynningu.