Málefni Íslands verða rædd á fundi stjórnar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þann 14. september næstkomandi. Taka átti endurskoðunina fyrir á fundi þann 7. ágúst sl. en því var frestað. Vonir standa til þess að eftir fundinn berist annar hluti 2,1 milljarða Bandaríkjadala láns sjóðsins hingað.
Í kjölfarið berist fyrsti fjórðungur 2,5 milljarða dala láns Norðurlandanna til styrkingar gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands. Lán Norðurlandanna til Íslands verða ekki afgreidd fyrr en ákvörðun AGS liggur fyrir.
„Aðalútborgunarskilyrði norrænu lánanna er samþykkt endurskoðunar framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á framvindu íslensku efnahagsáætlunarinnar,“ sagði Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar Íslands um gjaldeyrislánin í kjölfar afgreiðslu Alþingis á Icesave.
Fyrsti hluti láns AGS var 827 milljónir dala sem greiddur var út í nóvember á síðasta ári og restin átti að koma í átta jöfnum greiðslum sem verður hver að upphæð 155 milljónir dala.
Fyrsta endurskoðunin og annar hluti lánsins hefur dregist umtalsvert en upprunalega var hún á dagskrá í febrúar á þessu ári. Dráttur í endurskipulagningu bankanna, Icesave deilan, stjórnarskipti á Alþingi, tafir á framlagningu langtímaáætlunar í ríkisfjármálum o.fl. mál hafa valdið töfum.