Ellý Katrín Guðmundsdóttir, sviðstjóri umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar mun leysa Hrólf Jónsson sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs í vetur. Mun hún stýra báðum sviðunum en Hrólfur leggur í vetur stund á nám við Danmarks Tekniske Universitet í Kaupmannahöfn.
„Þetta verður umfangsmikið starf en ég lít ekki aðeins á það sem mitt verkefni, heldur verkefni allra starfsmanna sviðanna beggja,“ segir Ellý Katrín á vef Reykjavíkurborgar.
Ellý Katrín er með meistaragráðu i í umhverfis- og alþjóðarétti frá University of Wisconsin Law School. Á vef Reykjavíkurborgar segir hún að framundan sé meðal annars innleiðing Grænna skrefa sem er aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar til sjálfbærni.
Borgarstjórn samþykkti í sumar endurskoðun skrefanna þar sem tugir verkefna voru skilgreind, s.s. að stofnanir og svið borgarinnar verði til fyrirmyndar í vistvænum rekstri og að nýtt aðalskipulag Reykjavíkur verði unnið frá grunni með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þá ber Reykjavíkurborg að marka sér stefnu um þjónustu við vistvæna bíla og sjá til þess að virkt eftirlit verði með innilofti í byggingum Reykjavíkurborgar.