Bæjarstjóraskipti á Álftanesi?

Boðað hefur verið til aukafundar í bæjarstjórn Álftaness annað kvöld þar sem ráðningarsamningur bæjarstjóra verður til umræðu. Meirihluti er fyrir því meðal kjörinna bæjarfulltrúa að Sigurður Magnússon, bæjarfulltrúi Á-lista og bæjarstjóri, láti þegar af embætti.

Til aukafundarins er boðað að beiðni þriggja fulltrúa D-lista Sjálfstæðisflokks og Margrétar Jónsdóttur, sem kjörin var fyrir Á-lista en sagði skilið við listann í sumar.

Mikil ólga hefur verið í bæjarstjórnarmálun á Álftanesi. Margrét Jónsdóttir bæjarfulltrúi Á-lista og formaður bæjarráðs, sagði sig frá Álftaneshreyfingunni, sem skipar meirihluta bæjarstjórnar. Ástæða var sú að Margrét gat ekki sætt sig við endurkomu félaga hennar á Á-lista, Kristjáns Sveinbjörnssonar í bæjarstjórnina.

Kristján dró sig í hlé sem bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar í desember sl. Sagði hann í bréfi sem hann sendi bæjarstjórn að þannig vonaðist hann til þess að friður skapaðist um störf bæjarstjórnar á Álftanesi.

Þremur mánuðum síðar tilkynnti Kristján að hann hefði ákveðið að taka sæti í bæjarstjórn að nýju þar sem sá friður sem hann vænti hefði ekki orðið. Því hafnaði bæjarstjórnin og þann úrskurð kærði Kristján til ráðuneytisins sem úrskurðaði að Kristján hafi rétt á að sitja sem kjörinn bæjarfulltrúi til loka kjörtímabilsins 2010.

Þetta var í lok júlí. Á fundi bæjarráðs Álftaness 6. ágúst létu Margrét Jónsdóttir og Kristín Fjóla Bergþórsdóttir, bæjarfulltrúar Á-lista bóka að kjörnir fulltrúar Á-lista ynnu að endurnýjun samstarfssamnings um meirihluta þar sem ekki væri um málefnaágreining að ræða. Bæjarstjóri starfaði því í umboði kjörinna bæjarfulltrúa af Á-lista.

Nú aðeins mánuði seinna virðist umboð bæjarstjórans breytt. Hann virðist ekki lengur sitja í umboði Margrétar Jónsdóttur, en hún stóð eins og áður segir, að beiðni um aukafund í bæjarstjórn Álftaness þar sem ræða á framtíð bæjarstjórans.

Á aukafundinum mun Kristín Fjóla Bergþórsdóttir, bæjarfulltrúi Á-lista og forseti bæjarstjórnar, biðjast lausnar úr embætti forseta. Ekki liggur fyrir hvort hún hyggst einnig taka sér leyfi frá störfum í bæjarstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert