Áslaug Björg Viggósdóttir, eiginkona Guðmundar Haukssonar, þáverandi sparisjóðsstjóra SPRON, seldi Davíð Heiðari Hanssyni stofnfjárbréf í SPRON fyrir 55 milljónir króna í júlí 2007.
Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins að Grímur Sigurðsson, lögmaður Davíðs Heiðars, hafi fengið upplýsingar um þetta í dag. Hæstiréttur hafði áður dæmt að Hlyn Jónssyni, formanni skilanefndar SPRON, væri skylt að svara spurningum Gríms fyrir dómi um hver hefði selt Davíð Heiðari bréfin.
Hefur Hlynur verið kallaður fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur á morgun. Fram hefur komið að Davíð hyggist höfða mál og krefjast þess að kaupverðið verði endurgreitt komi í ljós að seljandinn hafi búið yfir upplýsingum um SPRON sem ekki voru aðgengilegar almennum fjárfestum.