Ekki hefur verið mikið um mótmæli erlendis vegna hvalveiða Íslendinga á þessu ári. Undantekningin frá þessu eru nokkrir dagar í júlímánuði er um sex þúsund mótmælaskeyti bárust til sendiráðsins í París frá heimasíðu samtaka í Frakklandi.
Samkvæmt upplýsingum Urðar Gunnarsdóttur, fjölmiðlafulltrúa í utanríkisráðuneytinu, hafa nokkur erlend náttúruverndarsamtök og verslunarkeðjur ritað íslenskum ráðherrum kurteisleg bréf þar sem hvatt er til að hvalveiðum verði hætt með tilvísun til dýraverndunar eða dýraréttindasjónarmiða. Engar hótanir hafa verið í bréfunum. Engin skilaboð hafa borist um marktæk áhrif hvalveiða á markaðsstarf ferðaþjónustufyrirtækja erlendis.
Náið fylgst með viðbrögðum
Utanríkisráðuneytið hefur fylgst náið með viðbrögðum við hvalveiðum Íslendinga erlendis og haldið yfirlit yfir mótmæli gegn þeim á undanförnum árum. Andóf gegn hvalveiðunum hefur fyrst og fremst verið í formi tölvuskeyta sem send voru frá heimasíðum erlendra umhverfis- og dýrarverndunarsamtaka.
Gífurlegur fjöldi slíkra skeyta barst fyrst eftir að vísindaveiðarnar hófust og aftur þegar fyrstu langreyðarnar voru veiddar 2006. Fjöldi þeirra minnkaði fljótt aftur þegar hvalveiðimálin hurfu úr forgrunni þessara heimasíðna en nokkur tölvuskeyti berast þó ennþá í hverjum mánuði til sumra sendiskrifstofa.